Merkir Íslendingar - Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur var þríkvæntur, eignaðist soninn Jóhann, sem er söngvari, og dótturina Vilhelmínu, sem er flugstjóri, en auk þess tvo stjúpsyni.
Vilhjálmur var einn vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur þar sem hann kynntist tónlistarmönnunum Einari Júlíussyni og Baldri Þórissyni. Hann var í Héraðsskólanum á Laugarvatni, lauk landsprófi á Ísafirði, stúdentsprófi frá MA 1964, bankaði uppá hjá Ingimar Eydal sama daginn með stúdentshúfuna og var munstraður sem bassaleikari í hljómsveit hans, en áður hafði hann leikið með Bassabandinu í þrjú ár.
Haustið 1965 kom Vilhjálmur aftur suður, söng inn á tvær tveggja laga plötur, lék með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli 1966-68 og síðan með Haukum og Hljómsveit Ólafs Gauks um skeið.
Vilhjálmur las lögfræði og síðan læknisfræði við HÍ skamma hríð, en hóf síðan flugnám og lauk því í Lúxenborg 1970. Hann var síðan flugmaður hjá Arnarflugi og flugkennari hjá Flugskóla Helga Jónssonar.
Vilhjálmur söng inn á fjórar plötur með Ellý, systur sinni, m.a. lög eftir Sigfús Halldórsson og Tólfta september, sendi frá sér sólóplötur og söng þrjú lög inn á plötu með Mannakorni. Síðasta plata hans, Með sínu nefi, kom út 1976.
Vilhjálmur lést í umferðarslysi í Lúxemborg fyrir aldur fram 28. mars 1978. Hann var þá einn dáðasti söngvari þjóðarinnar. Minningartónleikar voru haldnir um hann 2008 og í kjölfarið stofnaður sjóður til styrktar efnilegum söngvurum. Í dag verða svo haldnir tónleikar í Eldborg í Hörpunni er 70 ár eru frá fæðingu hans.
Jón Ólafsson ritaði ævisögu Vilhjálms, Söknuður, sem kom út 2008.
Morgunblaðið laugardagurinn 11. apríl 2015 - Merkir Íslendingar