A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
11.04.2015 - 06:21 | BIB,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Vilhjálmur fæddist í Merkinesi í Höfnum 11. apríl 1945, sonur Vilhjálms Hinriks Ívarssonar, harmonikkuleikara, söngmanns, bónda, og smiðs í Merkinesi, og Hólmfríðar Oddsdóttur húsfreyju. Meðal fjögurra systkina hans var Ellý Vilhjálms, ein dáðasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar fyrr og síðar.

Vilhjálmur var þríkvæntur, eignaðist soninn Jóhann, sem er söngvari, og dótturina Vilhelmínu, sem er flugstjóri, en auk þess tvo stjúpsyni.

Vilhjálmur var einn vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur þar sem hann kynntist tónlistarmönnunum Einari Júlíussyni og Baldri Þórissyni. Hann var í Héraðsskólanum á Laugarvatni, lauk landsprófi á Ísafirði, stúdentsprófi frá MA 1964, bankaði uppá hjá Ingimar Eydal sama daginn með stúdentshúfuna og var munstraður sem bassaleikari í hljómsveit hans, en áður hafði hann leikið með Bassabandinu í þrjú ár.

Haustið 1965 kom Vilhjálmur aftur suður, söng inn á tvær tveggja laga plötur, lék með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli 1966-68 og síðan með Haukum og Hljómsveit Ólafs Gauks um skeið.

Vilhjálmur las lögfræði og síðan læknisfræði við HÍ skamma hríð, en hóf síðan flugnám og lauk því í Lúxenborg 1970. Hann var síðan flugmaður hjá Arnarflugi og flugkennari hjá Flugskóla Helga Jónssonar.

Vilhjálmur söng inn á fjórar plötur með Ellý, systur sinni, m.a. lög eftir Sigfús Halldórsson og Tólfta september, sendi frá sér sólóplötur og söng þrjú lög inn á plötu með Mannakorni. Síðasta plata hans, Með sínu nefi, kom út 1976.

Vilhjálmur lést í umferðarslysi í Lúxemborg fyrir aldur fram 28. mars 1978. Hann var þá einn dáðasti söngvari þjóðarinnar. Minningartónleikar voru haldnir um hann 2008 og í kjölfarið stofnaður sjóður til styrktar efnilegum söngvurum. Í dag verða svo haldnir tónleikar í Eldborg í Hörpunni er 70 ár eru frá fæðingu hans.

Jón Ólafsson ritaði ævisögu Vilhjálms, Söknuður, sem kom út 2008.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 11. apríl 2015 - Merkir Íslendingar

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31