Merkir Íslendingar - Valtýr Guðmundsson
Valtýr fæddist á Árbakka á Skagaströnd 11. mars 1860. Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson, sýsluskrifari á Ytri-Ey og Geitaskarði, og Valdís Guðmundsdóttir húsfreyja.
Eiginkona Valtýs var Anna Jóhannesdóttir húsfreyja, dóttir Jóhannesar Guðmundssonar og k.h., Marenar Lárusdóttur Thorarensen.
Valtýr var tæplega fimm ára er faðir hans lést. Móðir hans giftist aftur og flutti móðurfjölskyldan til Vesturheims er Valtýr var 16 ára. Hann fór ekki með og sá móður sína aðeins einu sinni eftir það er hann var sjálfur á ferð í Vesturheimi.
Valtýr var í Lærða skólanum í Reykjavík og varð fyrsti forseti Framtíðarinnar, elsta skólafélags landsins, lauk stúdentsprófi 1883, mag. art.-prófi frá Hafnarháskóla 1887 og varði doktorsritgerð um norræna menningarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1889. Hann varð dósent við Kaupmannahafnarháskóla 1890 í sögu Íslands og bókmenntum og síðan prófessor þar frá 1920 til æviloka.
Valtýr settist fyrst á Alþingi 1894 og tók fljótlega að semja við danska ráðamenn um sjálfstjórnarkröfur Íslendinga. Hugmynd hans var að fá íslenskan ráðherra í danska ríkisstjórn. Viðbrögð Dana bentu til þess að Valtýr yrði sjálfur Íslandsráðherra í danskri stjórn. En um aldamótin var komin fram skýr, íslensk krafa um íslenskan ráðherra í Reykjavík. Andstæðingar valtýskunnar nefndu sig heimastjórnarmenn. Stjórnarskipti í Danmörku urðu til þess að þeir fengu kröfu sinni framfylgt og Hannes Hafstein „stal“ ráðherraembættinu af Valtý með glæsimennsku sinni og góðum samböndum í Kaupmannahöfn.
Valtýr var alþm. Vestmanneyinga 1894-1901, Gullbringu- og Kjósarsýslu 1903-1908, og Seyðfirðinga 1911-13. Hann var stofnandi Eimreiðarinnar, frægs tímarits um þjóðmál, og ritstjóri hennar til 1918. Eftir hann liggja rit um íslenska sögu, málfræði og bókmenntir, ljóð og ógrynni greina um stjórnmál.
Valtýr lést 23. júlí 1928.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 11. mars 2013 - Merkir Íslendingar