Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir
Þuríður Einarsdóttir, oftast nefnd Þuríður formaður, fæddist árið 1777 á Stéttum í Hraunshverfi á Eyrarbakka. Foreldrar hennar voru Einar Eiríksson, bóndi þar, og k.h. Helga Bjarnadóttir.
Þuríður bjó í foreldrahúsum þar til hún varð 25 ára gömul. Hún byrjaði að róa á vorvertíð hjá föður sinum 11 ára gömul og gerðist fullgildur háseti á vetrarvertíð hjá Jóni í Móhúsum, þá rúmlega tvítug að aldri. Hún fékk leyfi frá sýslumanni til að klæðast karlmannsfötum og klæddist ekki kvenmannsfötum eftir það.
Síðan bjó hún í Stokkseyrarhverfi, lengst af á Götu og var formaður þar, fyrst á vor- og haustvertíð, síðan á vetrarvertíðum. Hún flutti á Eyrarbakka 1830 og bjó þar til æviloka að undanskildum árunum 1840-1847 þegar hún dvaldist við verslunarstörf í Hafnarfirði. Fyrsta áratuginn sem hún bjó á Eyrarbakka var hún formaður í Þorlákshöfn á vetrarvertíðum og stýrði áttæringi og aflaði vel. Hún var lengst af sjálfrar sín, ýmist við smábúhokur eða sem húskona á Skúmsstöðum þar til seinustu 8-9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveitarstyrk.
Þuríður bjó um tveggja ára skeið með manni að nafni Erlendur Þorvarðarson í Eystri-Móhúsum. Þau eignuðust stúlku sem hét Þórdís en hún lést fimm ára gömul. Löngu síðar, eða árið 1820, giftist hún vinnumanni sínum, Jóni Egilssyni, sem þá var 21 árs, en þeirra hjónaband stóð ekki lengi.
Þuríður varð fræg fyrir að koma upp um Kambsránið, en það var rán sem framið var á bænum Kambi í Flóa 1827. Ræningarnir skildu eftir sig verksummerki m.a. skó, járnflein og vettling. Hún taldi sig þekkja handbragðið á skónum og að för á járnfleininum pössuðu við steðja í eigu Jóns Geirmundssonar á Stéttum í Hraungerðishreppi, sem var einn ránsmannanna.
Þuríður formaður lést í Einarshöfn 13. nóvember 1863.
Morgunblaðið 13. nóvember 2017.