A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
13.11.2017 - 22:39 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir

Þuríður Ein­ars­dótt­ir.
Þuríður Ein­ars­dótt­ir.

Þuríður Ein­ars­dótt­ir, oft­ast nefnd Þuríður formaður, fædd­ist árið 1777 á Stétt­um í Hrauns­hverfi á Eyr­ar­bakka. For­eldr­ar henn­ar voru Ein­ar Ei­ríks­son, bóndi þar, og k.h. Helga Bjarna­dótt­ir.

 

Þuríður bjó í for­eldra­hús­um þar til hún varð 25 ára göm­ul. Hún byrjaði að róa á vor­vertíð hjá föður sin­um 11 ára göm­ul og gerðist full­gild­ur há­seti á vetr­ar­vertíð hjá Jóni í Mó­hús­um, þá rúm­lega tví­tug að aldri. Hún fékk leyfi frá sýslu­manni til að klæðast karl­manns­föt­um og klædd­ist ekki kven­manns­föt­um eft­ir það.

 

Síðan bjó hún í Stokks­eyr­ar­hverfi, lengst af á Götu og var formaður þar, fyrst á vor- og haust­vertíð, síðan á vetr­ar­vertíðum. Hún flutti á Eyr­ar­bakka 1830 og bjó þar til æviloka að und­an­skild­um ár­un­um 1840-1847 þegar hún dvald­ist við versl­un­ar­störf í Hafnar­f­irði. Fyrsta ára­tug­inn sem hún bjó á Eyr­ar­bakka var hún formaður í Þor­láks­höfn á vetr­ar­vertíðum og stýrði át­tær­ingi og aflaði vel. Hún var lengst af sjálfr­ar sín, ým­ist við smá­búhok­ur eða sem hús­kona á Skúms­stöðum þar til sein­ustu 8-9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveit­ar­styrk.

 

Þuríður bjó um tveggja ára skeið með manni að nafni Er­lend­ur Þor­varðar­son í Eystri-Mó­hús­um. Þau eignuðust stúlku sem hét Þór­dís en hún lést fimm ára göm­ul. Löngu síðar, eða árið 1820, gift­ist hún vinnu­manni sín­um, Jóni Eg­ils­syni, sem þá var 21 árs, en þeirra hjóna­band stóð ekki lengi.

 

Þuríður varð fræg fyr­ir að koma upp um Kambs­ránið, en það var rán sem framið var á bæn­um Kambi í Flóa 1827. Ræn­ing­arn­ir skildu eft­ir sig verks­um­merki m.a. skó, járn­flein og vett­ling. Hún taldi sig þekkja hand­bragðið á skón­um og að för á járn­flein­in­um pössuðu við steðja í eigu Jóns Geir­munds­son­ar á Stétt­um í Hraun­gerðis­hreppi, sem var einn ráns­mann­anna.

 

Þuríður formaður lést í Ein­ars­höfn 13. nóvember 1863.
 


Morgunblaðið 13. nóvember 2017.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31