Merkir Íslendingar - Theódóra Thoroddsen
Foreldrar hennar voru Katrín Ólafsdóttir og Guðmundur Einarsson, prestur og alþingismaður, en hann var móðurbróðir Matthíasar Jochumssonar skálds.
Theódóra stundaði nám í Kvennaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist 1879.
Hún giftist Skúla Thoroddsen; lögfræðingi, sýslumanni, ritsjóra og alþingismanni og eignuðust þau þrettán börn. Þau bjuggu um skeið á Ísafirði og ráku þar verslun, fluttust að Bessastöðum og síðar að Vonarstræti 8, sem nú hefur verið flutt í Kirkjustræti.
Þulur Theódóru komu fyrst út 1916. Systursonur hennar, Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, myndskreytti. Þær hafa reglulega verið endurútgefnar síðan enda fagurlega myndskreyttar. Ritsafn Theódóru kom út 1960 og sá Sigurður Nordal um útgáfuna.
Smásögur hennar, Eins og gengur, litu dagsins ljós 1920. Kvæði, stökur og sagnir birtust víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún þýddi töluvert úr öðrum málum og safnaði einnig þjóðsögum. Hún leitaði fanga víða í saganefni sínum.
Theódóra var listfeng og mikil hannyrðakona. Þó nokkrar sýningar hafa verið haldnar á verkum hennar.
Afkomandi Theódóru, Ármann Jakobsson, skrifaði sögulegu skáldsöguna Vonarstræti 8, sem byggð er á ævi þeirra hjóna.
Sagan gerist að mestu leyti í Kaupmannahöfn árið 1908, þegar þau sigldu til Hafnar og Skúli átti sæti í millilandanefnd og gegndi því hlutverki að semja frumvarp um stöðu Íslands í danska ríkinu, en Theódóra fór með manni sínum og studdi við bakið á honum. Skúli var sá eini sem ekki samþykkti Uppkastið fræga sem samið var af þessu tilefni. Ágreiningurinn varð síðan helsta deiluefnið í Uppkastskosningunum 1908, er andstæðingar Uppkastsins unnu afgerandi sigur.
Theódóra lést 23. febrúar 1954.
Morgunblaðið 1. júlí 2017.