Merkir Íslendingar - Sverrir Kristjánsson
Foreldrar hans voru Kristján Guðmundsson, bóndi í Þverdal og Kjaransvík í Sléttuhreppi og síðar í Reykjavík, og k.h., Guðrún Vigdís Guðmundsdóttir húsfreyja.
Móðurafi Sverris, Guðmundur Gíslason í Ánanaustum, var bróðir Péturs Ó. Gíslasonar, bæjarfulltrúa og útgerðarmanns í Ánanaustum, langafi Páls Bergþórssonar, fyrrv. veðurstofustjóra, föður Bergþórs óperusöngvara.
Sonur Sverris og Bjargar Sigur jónsdóttur er Sigurjón Sverrisson flugmaður.
Fyrsta kona Sverris var Erna Einarsdóttir en þau skildu og eignuðust þau tvö börn, Einar Ragnar sem lést tæplega 19 ára, og Guðrúnu Vigdísi sem er hjúkrunarfræðingur á Seltjarnarnesi.
Önnur kona Sverris var Jakobína Tulinius kennari sem lést 1970.
Þriðja kona Sverris var Guðmunda Elíasdóttir, söngkona og kennari í Reykjavík. Í Lífsjátningu, frægri endurminningabók Guðmundu sem skráð var af Ingólfi Margeirssyni, er m.a. lýst tilhugalífi og samvistum hennar og Sverris sem þá var kominn á efri ár.
Sverrir lauk stúdentsprófi frá MR 1928 og stundaði sagnfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla 1929-39 og hálft ár í Berlín 1937. Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar frá 1941.
Vann við rannsóknir og skáningu bréfa og skjala frá og til íslenskra manna í Ríkisskjalasafni Dana, Bókhlöðu konungs og í National Museum í Kaupmannahöfn 1956-58 og vann að útgáfu á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar 1959-61.
Þekktustu ritverk Sverris eru án efa ritröðin Íslenskir örlagaþættir sem hann samdi og gaf út ásamt Tómasi Guðmundssyni skáldi. Hann var með ritfærari mönnum og hafsjór af fróðleik, skrifaði blaðagreinar og hélt fjölda útvarpsfyrirlestra um sagnfræðileg efni, menn og málefni.
Sverrir lést 26. febrúar 1976.