Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson
Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveinsdóttir, húsfreyja. Foreldrar Finns voru Finnur Magnússon, bóndi á Hvilft, og k.h. Sigríður Þórarinsdóttir, og foreldrar Guðlaugar voru Sveinn Rósinkranzson, útvegsbóndi og skipstjóri á Hvilft, og k.h. Sigríður Sveinbjörnsdóttir, húsfreyja.
Sveinbjörn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1933 og hagfræðiprófí frá London School of Economics 1939.
Hann var verksmiðjustjóri Síldarverksmiðju ríkisins á Sólbakka í Önundarfirði 1935-1937, fulltrúi í Verðlagsnefnd og Tveggjamannanefnd 1939-1941, skrifstofustjóri Viðskiptanefndar utanríkisviðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlagsstjóri á Íslandi 1943-1946.
Hann var frumkvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954.
Hann var hvatamaður að stofnun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 1952 og var framkvæmdastjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkjabandalagsins.
Sveinbjörn kenndi við Vogaskóla í Reykjavík 1963-1979 og var yfirkennari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfsfræðslu í skólum landsins.
Sveinbjörn var staðarráðsmaður við Skálholt 1964-1990, en hann var einn af stofnendum Skálholtsfélagsins sem hefur unnið að því að endurreisa Skálholtsstað.
Sveinbjörn var sæmdur Skálholtsorðunni, til minningar um vígslu Skálholtskirkju árið 1963, og gullþjónustupeningi með kórónu af Danadrottningu árið 1973.
Eiginkona Sveinbjörns var Thyra Finnsson, fædd Friis Olsen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slagelse í Danmörku. Hún var húsfreyja og ritari.
Börn þeirra:
Gunnar, f. 1940, d. 2014, Arndís, f. 1943, Hilmar, f. 1949, og Ólafur William, f. 1951.
Sveinbjörn Finnsson lést 1. apríl 1993.
___________________________________
Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:
Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.
Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:
Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri
senda skal þér kveðju hlýja.
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja.
Enn þú heldur austurleiðir,
— ekki bregður vana þínum.
Fagurt Skálholt faðminn breiðir,
— fagnar einkavini sínum.
Auðunn Bragi Sveinsson.
Morgunblaðið.