A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
18.11.2016 - 07:05 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Sonja Zorilla

Sonja W. Benjamínsson de Zorrilla
Sonja W. Benjamínsson de Zorrilla
Sonja Wendel Benjamínsson de Zorilla fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1916. Foreldrar hennar voru hjónin María Emelie Wendel, f. á Þingeyri, 18.10. 1887, d. 23.11. 1981, og Ólafur Indriði Benjamínsson frá Marðareyri í Veiðileysufirði, f. 19.9. 1876, d. 8.10. 1936, stórkaupmaður í Reykjavík.

Sonja ólst upp í Reykjavík þar sem hún stundaði nám við Landakotsskóla. Hún hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík en hætti þar námi þegar hún veiktist af lömunarveiki 15 ára gömul. Árið 1932 fór hún á sjúkrahús í Danmörku og náði góðum bata.

Sonja dvaldi hjá frændfólki sínu í Wiesbaden í Þýskalandi við listnám, hún hélt til London og síðar til Parísar þar sem hún stundaði einnig nám í listgreinum og tungumálum. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út fór hún til Spánar og þaðan til Bandaríkjanna og settist að í New York. Sonja lagði stund á myndlist og tískuteikningu, einkum málaði hún andlitsmyndir. Verk hennar birtust meðal annars á forsíðu Vogue. Hún auðgaðist mjög á fjárfestingum á Wall Street.

Sonja giftist Victoriano Alberto Zorilla, f. í Búenos Aíres í Argentínu 6.4. 1906, d. í Flórída 23.4. 1986. Alberto var þjóðhetja í heimalandi sínu eftir að hann vann gullverðlaun í 400 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum 1928. Sonja og Alberto bjuggu allan sinn búskap í New York-borg. Þar eignuðust þau fjölda vina sem settu svip sinn á borgina og öldina sem leið. Þau voru barnlaus.

Sonja fór frá Íslandi árið 1932 en kom einu sinni í heimsókn fyrir stríð. Hún kom ekki aftur fyrr en árið 1970 og dvöldu þau Alberto hér um lengri og skemmri tíma frá þeim tíma og byggðu sér bústað á Þingvöllum.

Enda þótt Sonja dveldi langdvölum fjarri fæðingarlandi sínu var hún alltaf mjög stolt af íslenskum uppruna sínum og flutti að lokum alfarið heim til Íslands.

Sonja lést í Reykjavík 22. mars 2002.

 

Reynir Traustason skrifaði sögu Sonja Zorilla sem kom út árið 2002 - Líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorrilla

 

Morgunblaðið 18. nóvember 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31