A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
12.12.2016 - 07:04 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Skúli Magnússon

Skúli Magnússon (1711 - 1794)
Skúli Magnússon (1711 - 1794)
Skúli Magnússon landfógeti fæddist að Keldunesi í Kelduhverfi, N-Þing., 12. desember 1711. Foreldrar hans voru Magnús Einarsson, prestur á Húsavík, og k.h., Oddný Jónsdóttir húsfreyja.

Kona Skúla var Steinunn Björnsdóttir en meðal barna þeirra voru Jón aðstoðarlandfógeti og Rannveig, kona Bjarna Pálssonar landlæknis.

Skúli hóf skólanám hjá Þorleifi Skaftasyni, prófasti í Múla í Aðaldal, 1727. Faðir Skúla drukknaði 1728 en móðir hans giftist þá Þorleifi sem útskrifaði Skúla með stúdentspróf. Hann stundaði nám við Hafnarháskóla í tvö ár án þess að ljúka prófi, sneri aftur til Íslands 1734, varð sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu og landskrifari fyrir Odd Magnússon, var skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu 1737 og bjó þá lengst af á Stóru-Ökrum. Skúli hafði forsjá Hólastóls 1739-46, lenti þá í útstöðum við Bjarna Halldórsson, sýslumann á Þingeyrum, sem samdi úttekt staðarins og kærði Skúla fyrir vanskil. Á endanum var Skúli þó hreinsaður af sök.

Í Skagafirði tókst Skúli á við einokunarkaupmenn, hafði andúð á viðurlögum fyrir brot á lögum um einokunarverslun, kærði danskan kaupmann á Hofsósi fyrir viðskiptasvik, lenti því í málaferlum þar sem Bjarni Halldórsson var málsvari kaupmanns en Skúli vann málið og hlaut af vinsældir almennings.

Skúli var skipaður landfógeti, fyrstur Íslendinga, árið 1749, settist að á Bessastöðum 1750, barðist fyrir umbótum í landbúnaðarmálum og iðnaði og var áhugamaður um þilskipaútgerð. Hann stofnaði Innréttingarnar ásamt íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 1751. Verksmiðjunum var valinn staður í Reykjavík og er Skúli því oft nefndur „faðir Reykjavíkur“.

Viðeyjarstofa var reist sem bústaður hans 1753-55 og hann lét reisa þar Viðeyjarkirkju, enda trúrækinn.

Skúli Magnússon lést 9. nóvember 1794 og hvílir í Viðey.

 

Morgunblaðið 12. dsember 2016 - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson


 
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31