Merkir Íslendingar - Sigvaldi Hjálmarsson
Sigvaldi missti móður sína er hann var þriggja ára og ólst upp eftir það hjá afa sínum, Sigvalda Björnssyni, bónda á Skeggsstöðum.
Eiginkona Sigvalda sem lést 2007 var Bjarney Halldóra Alexandersdóttir húsfreyja, frá Dynjanda í Leirufirði, og eignuðust þau eina dóttur, Ólöfu Elfu Sigvaldadóttur.
Sigvaldi lauk prófi frá Reykholtsskóla 1940 og kennaraprófi frá KÍ 1943. Hann sinnti kennslu og skólastjórn í Hveragerði næstu þrjú árin, kenndi einn vetur í Reykjavík en varð þá blaðamaður við Alþýðublaðið, ritstjórnarfulltrúi og fréttastjóri þar með hléum á árunum 1947-72. Þá var hann ritstjóri Fálkans um skeið, ritstýrði tímaritinu Úrval, var eitt ár yfirmaður þýðingardeildar Sjónvarpsins, var blaðamaður við Vísi og fréttaritari sænsku fréttastofunnar TT. Jafnframt vann hann að félagsmálum blaðamanna og rithöfunda. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og sat m.a. í nefndum á vegum hans í borgarstjórn Reykjavíkur.
Á bernskuheimili sínu kynntist Sigvaldi bókum um guðspeki, hreifst snemma af stefnu Guðspekifélagsins, gekk í félagið í Reykjavík, var forseti þess um árabil, ritstjóri Ganglera, tímarits Guðspekifélagsins, og starfaði þar óslitið til æviloka. Hann átti sæti í allsherjarráði Guðspekifélagsins og í stjórn Evrópusambands Guðspekifélagsins. Hann stofnaði Hugræktarskóla 1978 sem starfaði nánast meðan hann lifði.
Sigvaldi sendi frá sér ljóðabækur, ferðapistla og rit um hugrækt, indverska heimspeki og dulfræði.
Sigvaldi var lipur penni, bráðskemmtilegur fyrirlesari, hressilegur og ljúfur í viðkynningu og umtalsfrómur.
Sigvaldi lést 17. apríl 1985.
Sigvaldi skrifað bækur um austurlensk fræði auk ferðaþátta frá Indlandi.
Eftir hann liggja alls níu bækur:
1. Eins og opinn gluggi, erindi um mystískt líf 1968,
2. Eins konar þögn, ábendingar í hugrækt, 1973
3. Að horfa og hugsa, blaðagreinar, 1973
4. Tunglskin í trjánum, ferðaþættir frá Indland, 1974
5. Haf í dropa, þættir um yoga og austræna hugsun, 1976
6. Vatnaskil, ljóð, 1976
7. Að sjá örðuvísi, esseiar um mannlegt líf, 1979
8. Stefnumót við alheiminn, leiðbeiningar um esóteríska iðkun, 1982
9. Víðáttur, ljóð, 1984