A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
04.12.2016 - 06:52 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Sigurður J. Ólafsson

Sigurður J. Ólafgsson (1916 - 1993)
Sigurður J. Ólafgsson (1916 - 1993)
Sigurður J. Ólafsson fæddist í Reykjavík 4. desember 1916, sonur Ólafs Jónatanssonar frá Kolbeinsstöðum, verkamanns í Reykjavík, og Þuríðar Jónsdóttur frá Elliða í Staðarsveit.

Albræður Sigurðar voru Erling söngvari og Jónatan, píanóleikari og tónskáld, en hálfsystkini hans voru Sigmundur Halldórsson, arkitekt og byggingafulltrúi; Guðmundur Halldórsson forstjóri; Sigurborg Halldórsdóttir húsfreyja og Jóhanna Halldórsdóttir, húsfreyja á Eiðhúsum í Miklaholtshreppi.

Eiginkona Sigurðar var Inga Valfríður Einarsdóttir, sjúkraliði frá Miðdal, systir Guðmundar listamanns, föður Errós, Ara Trausta og Egils arkitekts, en börn Sigurðar og Ingu Valfríðar: Valgerður meinatæknir sem er látin; Erling tamningamaður; Ævar bílamálari; Þuríður, söngkona og myndlistarmaður, Gunnþór, lengi hjá Sjónvarpinu, en dóttir Sigurðar frá því áður er Elsa húsfreyja.

Sigurður stundaði bifreiðaakstur á yngri árum, var rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu HÍ og á Keldum, gærumatsmaður hjá SÍS, kjötmatsmaður á vegum yfirdýralæknis og sá um talningu búfjár í borgarlandinu á vegum Reykjavíkurborgar.

Sigurður sótti ungur söngtíma hjá Sigurði Birkis og Guðmundi Jónssyni, söng með Karlakór Reykjavíkur frá 23 ára aldri og síðar með eldri félögum kórsins. Hann söng í Rigoletto, fyrstu óperunni sem hér var færð upp, í óperettunum Leðurblökunni og Bláu kápunni og lék og söng í fjölda leikrita, hélt fjölda tónleika, var söngvari með ýmsum danshljómsveitum og söng dægurlög inn á fjölda hljómplatna.

Þá var Sigurður einn þekktasti hestamaður sinnar kynslóðar hér á landi. Hann stundaði hestamennsku frá fermingaraldri og átti fjölda hrossa sem mörg gerðu garðinn frægan, en þekktasta skeiðhross hans var Gletta sem átti Íslandsmet í skeiði í samtals 28 ár.

Sigurður lést 13. júlí 1993.

 

Morgunblaðið - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31