A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
01.03.2017 - 21:36 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Sigurður Eggerz

Sigurður Eggerz (1875 - 1945).
Sigurður Eggerz (1875 - 1945).
Sigurður Eggerz ráðherra fæddist á Borðeyri 1. mars 1875. Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson Eggerz, kaupstjóri þar, og Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja.

Í ættum Sigurðar og fjölskyldu eru óvenju margir alþingismenn og ráðherrar, s.s. bróðir hans, Guðmundur, alþingismaður og sýslumaður, og tveir mágar hans, Páll Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, og Ólafur Thorlacius alþingismaður, faðir Kristjáns Thorlacius sem var formanns BSRB og varaþingmaður.

Þá var Sigurður kvæntur Solveigu, dóttur Kristjáns Jónssonar ráðherra, bróður Péturs ráðherra og Steingríms, alþingismanns og bæjarfógeta á Akureyri, en þeir voru synir Jóns Sigurðssonar, alþingismanns og héraðshöfðingja á Gautlöndum, og eru því af Gautlandsætt og Reykjahlíðarætt, fjölmennustu ráðherraætt landsins.

Tengdamóðir Sigurðar var hins vegar Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns sem átti ræturnar að Holti í Önundarfirði.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1895 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1903. Hann var sýslumaður á nokkrum stöðum, lengst af i Vík í Mýrdal, var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931. Hann varð ráðherra Íslands 1915 en sagði af sér ári síðar er konungur vildi ekki fallast á fyrirvarann um uppburð íslenskra mála í Ríkisráði Dana. Þá var Sigurður fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.

Sigurður var síðan bankastjóri Íslandsbanka frá 1924 þar til bankinn var lagður niður 1930. Hann sinnti lögmannsstörfum í Reykjavík, var bæjarfógeti á Ísafirði 1932-34 og á Akureyri 1934-1945.

Sigurður var fyrirmannlegur og höfðinglegur á velli, þótti flekklaus, ljúfur og alþýðlegur, og umtalsverður áhugamaður um skáldskap eins og fleiri stjórnmálamenn þá.  

Sigurður lést 16. nóvember 1945.

Morgunblaðið.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31