Merkir Íslendingar - Rúnar Júlíusson
Rúnar var sonur Júlíusar Eggertssonar málarameistara og Guðrúnar Bergmann Stefánsdóttur.
Guðrún var systir Jóhanns Bergmann, föður Árna Bergmann rithöfundar. Hún var dóttir Stefáns Bergmann ljósmyndara, bróður Jónínu, ömmu Guðlaugs Bergmann í Karnabæ.
Eftirlifandi eiginkona Rúnars er María Baldursdóttir söngkona og eignuðust þau tvo syni en María er systir Þóris Baldurssonar tónlistarmanns.
Rúnar var í hópi þekktustu popptónlistarmanna landsins á síðari helmingi síðustu aldar og í fjölmennum hópi popptónlistarmanna sem komu frá Bítlabænum Keflavík um og eftir 1963.
Rúnar lék með Hljómum 1963-69 og síðar, Trúbroti 1969-73, Ðe lónlí blú bojs 1976, Geimsteini, Áhöfninni á Halastjörnunni, GCD og Bubba og Rúnari. Hann vann fjölda hljómplatna með þessum hljómsveitum, gaf út fjölda sólóplatna og var flytjandi og söngvari á fjölda hljómplatna með öðrum tónlistarmönnum. Auk þess samdi hann mikinn fjölda laga og starfrækti hljóðverið og útgáfufyrirtækið Geimstein sem gaf út fjölda hljómplatna.
Rúnar æfði og lék knattspyrnu með ÍBK um árabil, lék með meistaraflokki liðsins og varð Íslandsmeistari með ÍBK 1959 og 1964.
Rúnar sat í stjórn SFH og SHF, í stjórn FTT, sat í fulltrúaráði STEF, var formaður skólanefndar Tónlistarskóla Keflavíkur og var geysilega fróður um rokksöguna, hvort sem það var rokksaga Keflavíkur, eða annarra staða í veröldinni.
Rúnar lést 5. desember 2008.
Morgunblaðið 13. apríl 2017.