Merkir Íslendingar - Regína Thorarensen
Emil var sonur Tómasar, bónda á Syðra-Krossanesi í Eyjafirði Jónssonar og Guðrúnar, móður Önnu, ömmu Valdimars Jóhannssonar bókaútgefanda. Guðrún var dóttir Guðmundar, dbrm. í Stóra-Dunhaga í Hörgárdal Halldórssonar, b. á Krossastöðum Jónssonar, bróður Jóns, afa Jóns Magnússonar forsætisráðherra. Systir Halldórs var Guðrún, langamma Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra.
Hildur var dóttir Bóasar Bóassonar, bónda á Stuðlum, bróður Bóelar, langömmu Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra. Móðir Bóasar var Guðrún, systir Páls á Sléttu, afa Páls, afa Kjartans Gunnarssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, og Harðar Einarssonar framkvæmdastjóra.
Eiginmaður Regínu var Karl Ferdinand Thorarensen járnsmíðameistari sem lést 1996. Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Sigrún Guðmundsdóttir húsfreyja og Jakob Jens Jakobsson Thorarensen, bóndi, vitavörður, hákarlaformaður, símstöðvarstjóri, bréfhirðingamaður og úrsmiður.
Börn Regínu og Karls: Hilmar Friðrik, Guðbjörg Karólína, Guðrún Emilía og Emil.
Regína og Karl bjuggu í Skerjafirði 1939-42, í Djúpuvík á Ströndum 1942-47, á Gjögri 1947-62, á Eskifirði 1962-81 og á Selfossi 1981-96. Síðan bjó Regína í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði.
Regína var fréttaritari Morgunblaðsins 1954-63 og Dagblaðsins frá stofnun þess og síðar DV á Eskifirði, Gjögri og Selfossi. Hún var í hópi þekktari fréttaritara, beinskeyttur og skemmtilegur penni, áhugasöm um almannaheill og félagsmál og lét mikið til sín taka á mannfundum og með skrifum í dagblöð.
Regína lést 22. apríl 2006.
Morgunblaðið 29. apríl 2017.