A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
23.06.2016 - 08:30 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Pétur Þórarinsson

Pétur Þórarinsson.
Pétur Þórarinsson.
Pétur fæddist á Akureyri 23. júní 1951, sonur hjónanna Halldóru Elínar Jónsdóttur, lengst af kennara við Oddeyrarskóla á Akureyri, og Þórarins Snæland Halldórssonar, stýrimanns, frystihússtjóra og síðar skrifstofumanns hjá KEA.

Foreldrar Þórarins voru Halldór Jónsson, sjómaður og verkamaður á Akureyri, og k.h., Hrefna Pétursdóttir húsfreyja, en foreldrar Elínar voru Jón Almar Eðvaldsson, verkamaður á Akureyri, og k.h., Jakobína Guðbjartsdóttir húsfreyja.

Systkini Péturs: Aníta Þórarinsdóttir, lengst af kennari á Hlíðarenda, Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Hafnarfirði, og Erna Þórarinsdóttir, kennari og söngvari.

Pétur kvæntist 1971 Ingibjörgu Svöfu Siglaugsdóttur hjúkrunarfræðingi og eignuðust þau þrjú börn, Þórarinn Inga, Jón Helga og Heiðu Björk.

Pétur lauk stúdentsprófi frá MA 1971 og embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1976. Hann vígðist prestur 1976, var sóknarprestur í Hálsprestakalli 1976-82, í Möðruvallaprestakalli 1982-89, í Glerárprestakalli frá 1989-91 og í Laufásprestakalli frá 1991. Pétur var prófastur í Þingeyjarprófastsdæmi 1999-2006 og sat á kirkjuþingi 1998-2002.

Pétur starfaði mikið að æskulýðsmálum innan kirkjunnar og að málefnum ungmennahreyfingarinnar og gegndi trúnaðarstörfum fyrir sauðfjárbændur. Hann var áhugasamur sauðfjárræktandi og bóndi af ástríðu og þau hjónin bæði ástsæl og virt af söfnuði sínum og kollegum Péturs. Pétur hafði greinst með sykursýki á háu stigi, níu ára að aldri, var oft mjög veikur og missti báða fætur í baráttunni við sjúkdóminn, en sýndi þó ætíð ótrúlegt æðruleysi og karlmennsku og var öðrum stoð og huggun í eigin mótlæti.

Pétur samdi m.a. sálminn Í bljúgri bæn, og árið 1996 kom út bókin Lífskraftur, baráttusaga séra Péturs og Ingu í Laufási, þar sem m.a. er fjallað um langa sjúkdómssögu Péturs, sorgir og sigra.

Pétur lést 1. mars 2007.


Morgunblaðið fimmtudagurinn 23. júní - merkir Íslendingar.

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31