A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
16.10.2017 - 06:39 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Pétur Pétursson

Pétur Pétursson (1918 - 2007).
Pétur Pétursson (1918 - 2007).

Pétur Pétursson fæddist á Eyrarbakka 16. október 1918 en ólst upp á Bráðræðisholtinu og á Framnesveginum í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Pétur Guðmundsson, skólastjóri á Eyrarbakka, og k.h., Elísabet Jónsdóttir húsfreyja.

Pétur skólastjóri var sonur Guðmundar, bónda í Langholtsparti í Flóa Sigurðssonar, bróður Guðlaugar, móður Sigurðar regluboða, föður Sigurgeirs biskups, föður Péturs biskups.

Móðurbróðir Péturs var Bergsteinn, langafi Atla Heimis Sveinssonar, en móðursystir Péturs var Ólöf, amma Bergsteins Jónssonar sagnfræðiprófessors.

Elísabet var dóttir Jóns, alþm. á Eyvindarmúla Þórðarsonar.

Meðal systkina Péturs var Jón Axel bankastjóri.

Eiginkona Péturs var Ingibjörg Birna Jónsdóttir húsfreyja en dóttir þeirra, Ragnheiður Ásta, var útvarpsþulur um áratuga skeið, móðir Eyþórs Gunnarssonar tónlistarmanns.

Pétur stundaði nám við lýðháskólann í Tarna og í skólum sænska alþýðusambandsins og samvinnusambandsins í Svíþjóð og Pitman's College í London 1937-38. Hann var sendill og síðar bankaritari í Útvegsbankanum í Reykjavík, 1931-42, og þulur hjá Ríkisútvarpinu 1941-55 og 1970-88. Auk þess var Pétur kaupmaður í Reykjavík og umboðsmaður skemmtikrafta 1955-70, var leiðsögumaður hjá Ferðaskrifstofu ríkisins 1950-60 og auglýsingastjóri Alþýðublaðsins 1958-59.

Pétur sá um útgáfu og ritaði formála að bókinni Réttvísin gegn Ólafi Friðrikssyni, útg. í Reykjavík 1986. Hann sinnti dagskrárgerð í fjölda ára, stýrði m.a. barnatíma á árunum 1943-44, og sá um útvarpsþættina Lög og létt hjal og Sitt af hverju tagi. Þá tók hann saman fjölda þátta um mannlífið í Reykjavík fyrri tíma. Hann stóð fyrir fyrstu dægurlagasamkeppninni hér á landi á Hótel Íslandi árið 1939.

Pétur var vinsæll útvarpsþulur, hafði hljómþýða rödd og listilega framsögn. Hann lést 23. apríl 2007.

Morgunblaðið.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31