A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
10.11.2017 - 06:32 | Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

Matthías Jochumsson (1835 - 1920).
Matthías Jochumsson (1835 - 1920).
Matthías Jochumsson fæddist 11. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði, sonur Jochums Magnússonar og Þóru Einarsdóttur. Þóra var systir Guðmundar, pr. á Kvennabrekku, föður Ásthildar, móður Muggs, og föður Theodóru Thoroddsen skáldkonu, ömmu Dags Sigurðarsonar skálds.

Foreldrar Matthíasar bjuggu við barnaómegð og gestanauð á harðæristímum og fór því Matthías til vandalausra 11 ára. Hann var til sjós og í vinnumennsku og sinnti verslunarstörfum í Flatey þar sem hann kynntist fólki sem kom honum til mennta. Hann útskrifaðist frá Prestaskólanum þrítugur að aldri.

Matthías var prestur á Kjalarnesi en þar missti hann fyrstu og aðra eiginkonu sína með stuttu millibili. Hann sagði þá af sér prestsskap, fór utan og varð síðan ritstjóri Þjóðólfs. Eftir að Matthías giftist þriðju konu sinni var hann prestur að Odda á Rangárvöllum í nokkur ár en síðan á Akureyri.

Matthías og Steingrímur Thorsteinsson voru helstu skáldmæringar síðrómantísku stefnunnar. Vinátta þeirra var einlæg þótt oft hvessti á milli þeirra. Matthías var skáld mannlífs, örlaga og tilfinninga en Steingrímur skáld hinnar ósnortnu náttúru. Matthías var mælskur, andríkur og tilfinninganæmur en Steingrímur vitsmunalegra og líklega vandvirkara skáld. Matthías var auk þess eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Hann orti lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Þá samdi hann leikritið Skugga-Svein, sem var klassískt leikhúsverk hér á landi á fyrstu áratugum íslenskrar leiklistar.

Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans. Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, kom út haustið 2006.

Matthías lést 18. nóvember 1920.

Morgunblaðið.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31