Merkir Íslendingar - Jónas Hallgrímsson
Jónas lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1829, sigldi til Kaupmannahafnar 1832, hóf laganám en söðlaði fljótlega um, hóf nám í náttúrufræði og lauk prófum í náttúrufræði (steinafræði og jarðfræði) við Hafnarháskóla 1838.
Jónas stofnaði ársritið Fjölni árið 1835, ásamt Brynjólfi Péturssyni, Konráð Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Markmið Fjölnis var að blása í þjóðfrelsisglóð hnípinnar þjóðar, minna hana á sínu fornu frægð og upplýsa hana um það besta í skáldskap og vísindum álfunnar. Ljóð Jónasar, Íslands farsældar frón, sem er grískur fimmliðaháttur, birtist í fyrsta árgangi Fjölnis sem nokkurs konar stefnuskrá hans.
Jónas var, ásamt Bjarna Thorarensen, boðberi nýrrar gullaldar í íslenskri ljóðagerð, varð helsta skáld íslenskra stúdenta í Höfn, hefur sl. 150 ár verið talinn ástsælasta skáld þjóðarinnar og jafnframt eitt fremsta skáld Evrópu á sinni tíð.
Jónasar smíðaði fjölda nýyrða, m.a. aðdráttarafl, fjaðurmagnaður, hitabelti, ljósvaki, sjónarhorn, sólmyrkvi, sporbaugur og vetrarbraut. Hann fékk ríkisstyrk til rannsókna á náttúrufari Íslands, vann að því verki 1839-1842 og setti fram merk drög að kenningu um landmynd Íslands. Hann fór í rannsóknaferðir um landið, lenti í hrakningum síðsumars 1839, hafði næstum orðið úti, fékk slæma brjósthimnubólgu, lá rúmfastur í Reykjavík næsta vetur, en hélt til Kaupmannahafnar 1842 og var búsettur í Danmörku þrjú síðustu æviárin.
Jónas fótbrotnaði illa er hann féll í stiga og lést á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn 26. maí 1845.
Morgunblaðið.