A A A
03.03.2017 - 07:00 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Jón Þorláksson

Jón Þorláksson (1877 - 1935).
Jón Þorláksson (1877 - 1935).
Jón Þorláksson forsætisráðherra fæddist í Vesturhópshólum 3. mars 1877. Foreldrar hans voru Þorlákur Þorláksson, hreppstjóri þar, og k.h., Margrét Jónsdóttir húsfreyja.

Föðurbróðir Jóns var Þórarinn Þorláksson listmálari, en systir Jóns var dr. Björg Þorláksson, fyrsti íslenski kvendoktorinn.

Kona Jóns var Ingibjörg, dóttir Jean Valgard vann Deurs Claessen, landsféhirðis, og Kristín Eggertsdóttur Briem. Þau Jón og Ingibjörg áttu tvær kjördætur.

Jón lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1897, með hæstu einkunn í sögu skólans, og prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1903, þriðji Íslendingurinn sem lauk verkfræðiprófi.

Jón rannsakaði byggingarefni og brúargerð hér á landi 1903-1905, var skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík frá stofnun 1904-1911, landsverkfræðingur 1905-1917, rak sjálfstæða verkfræðistofu og byggingavöruverslun í Reykjavík 1917-1923 og síðan verslunina í samvinnu við Óskar Norðmann til æviloka, var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1906-1908 og 1910-22, alþingismaður 1921-33, fjármálaráðherra 1924-27, forsætisráðherra 1926-27 og borgarstjóri í Reykjavík frá 1933 og til dauðadags. Hann var formaður Verkfræðingafélags Íslands, einn helsti stofnandi og seinni formaður Íhaldsflokksins 1926-29 og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins.

Jón var einn merkasti framfarasinni Íslandssögunnar. Hann hafði mikil áhrif á upphaf steinsteyptra húsa hér á landi, skipulagði og vann að brúa- og vegagerð, stofnaði pípugerð fyrir holræsi, stóð fyrir stofnun almenningsbaðhúss í Reykjavík 1907, rannsakaði og vann að fyrstu almenningshitaveitu í heiminum og skrifaði rit um vatnsorku landsins.

Jón var hægur í framgöngu, yfirvegaður og um fram allt rökfastur.

Ævisaga Jóns, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, kom út 1992.

Jón lést 20. mars 1935.

 

 

Morgunblaðið - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31