Merkir Íslendingar - Jón Hákon Magnússon
Eiginkona Jóns Hákons var Áslaug Guðrún Harðardóttir fjármálastjóri sem lést fyrir rúmu ári. Þau eignuðust tvö börn: Áslaugu Svövu og Hörð Hákon.
Jón Hákon lauk BA-prófi í stjórnmálafræði og blaðamennsku frá Macalester College í St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum 1964.
Jón Hákon var blaðamaður á Tímanum 1958-60 og 1965, fulltrúi hjá The World Press Institute 1962 og 1964, blaðamaður í Boston og í Washington DC 1964, sölu- og markaðsstjóri hjá bílaumboðinu Vökli hf. 1965-69 og skrifstofustjóri hjá Flughjálp vegna Biafra-stríðsins 1969-70.
Jón Hákon var blaðafulltrúi á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Hann var fréttamaður á fréttastofu RÚV Sjónvarpi 1970-79 og var þá m.a. umsjónarmaður með umræðuþætti um erlend málefni. Hann var markaðsstjóri hjá Vökli hf 1979-81 og framkvæmdastjóri markaðssviðs Hafskips hf 1982-85.
Jón Hákon stofnaði og var framkvæmdastjóri KOM, kynningar og markaðar ehf. á árunum 1986-2013.
Jón Hákon sat í stjórn FÍB 1967-70, Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi 1968-72, Samtaka um vestræna samvinnu, var forseti Rotaryklúbbs Seltjarnarness 1979-80, umdæmisstjóri Rotary-umdæmisins 1993-94, sat í stjórn Bílgreinasambandsins og Verslunar og viðskipta 1978-82, var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi 1985-90, sat í bæjarstjórn Seltjarnarness, var þar forseti bæjarstjórnar um skeið og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann annaðist rekstur fjölmiðlastöðvarinnar í tengslum við leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs 1986.
Jón Hákon lést 18. júlí 2014.
Morgunblaðið 12. seðtember 2017.