Merkir Íslendingar - Jakobína Sigurðardóttir
Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, bóndi í Hælavík, og Halldóra Guðnadóttir húsfreyja.
Jakobína átti alls 12 systkini en meðal þeirra var Fríða Á. Sigurðardóttir rithöfundur.
Jakobína flutti að Garði í Mývatnssveit 1949 og bjó þar til æviloka, ásamt manni sínum, Þorgrími Starra Björgvinssyni, og börnum þeirra, þeim Stefaníu, Sigrúnu Huld, Sigríði Kristínu og Kára. Hún stundaði nám við Ingimarsskólann í Reykjavík og nám utanskóla við KHÍ, en þess utan var hún sjálfmenntuð.
Jakobína sendi m.a. frá sér endurminningabók, skáldsögur, smásögur og ljóð en verk hennar komu út á árunum 1959-2004. Formtilraunir og næm stílvitund einkenna verk hennar. Hún réri ávallt á ný mið með hverju verki og fiskaði ríkulega. Hún var formbyltingarhöfundur.
Fyrsta verk Jakobínu, ævintýrið Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur kom út 1959 og vakti strax athygli.
Í kjölfarið fylgdi kvæðasafn og síðar smásagnasafnið Púnktur á skökkum stað, 1964. Fyrsta skáldsaga Jakobínu, Dægurvísa, 1965, sló í gegn og var framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1966. Auk þess var Lifandi vatnið og Snaran framlag Íslendinga til þeirra verðlauna nokkru seinna.
Dægurvísa er hópsaga, ein fárra slíkra í íslenskum bókmenntum. Frásagnarhátturinn í Snörunni, 1968, er ágengur; annarrar persónu frásögn sem er bein ræða sögumanns frá upphafi til enda. Sterk þjóðfélagsádeila endurspeglast í verkinu Lifandi vatnið, 1974. Bókin Í barndómi er einstök í sinni í röð; átakanleg og lýrísk lýsing á uppvexti Jakobínu á Hornströndum, undravert að hún skyldi ná að ljúka verkinu fyrir dauða sinn.
Jakobína lést 29. janúar 1994.
Morgunblaðið.