Merkir Íslendingar - Ingibjörg H. Bjarnason
Hákon var sonur Bjarna Gíslasonar, pr. á Söndum, og k.h., Helgu Árnadóttur, en Jóhanna Kristín var dóttir Þorleifs Jónssonar, prófasts í Hvammi í Hvammssveit, og k.h., Þorbjargar Hálfdánardóttur. Meðal bræðra Ingibjargar voru Lárus H. Bjarnason, sýslumaður, bæjarfógeti og hæstaréttardómari, og Ágúst H. Bjarnason, doktor í heimspeki, rektor HÍ og fyrsti forseti Vísindafélags Íslendinga, faðir Hákonar Bjarnason skógræktarstjóra.
Ingibjörg var í námi hjá Þóru, konu dr. Þorvaldar Thoroddsens náttúrufræðings og dóttur Péturs Péturssonar biskups. Þá stundaði hún nám í Kaupmannahöfn 1884-85 og 1886-93. Auk þess dvaldi hún erlendis 1901-1903 og kynnti sér þá m.a. skólahald í Þýskalandi og Sviss.
Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi. Hún sat á þingi 1922-30, fyrst fyrir Kvennalistann eldri, þá fyrir Íhaldsflokkinn og loks Sjálfstæðisflokkinn frá stofnun hans 1929. Hún var öflugur málsvari kvenna og kvennasamtaka á þingi, barðist ötullega fyrir velferðarmálum og réttindum kvenna, barna og ekki síst þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu.
Höggmynd af Ingibjörgu, eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara, var afhjúpuð við Skála Alþingis á kvennadaginn 19. júní árið 2015.
Ingibjörg kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík frá 1903 en þá var hann enn til húsa hjá Þóru Melsted í Thorvaldssenstræti, í húsi sem síðar var nefnt Sjálfstæðishús eða Sigtún og loks Nasa. Er skólinn flutti í nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og stýrði honum til æviloka.
Ingibjörg lést 30. október 1941.
Morgunblaðið 14. desember 2017.