A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
14.12.2017 - 07:18 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Ingibjörg H. Bjarnason

Ingibjörg H. Bjarnason (1867 - 1941).
Ingibjörg H. Bjarnason (1867 - 1941).
« 1 af 2 »
Ingi­björg H. Bjarna­son fædd­ist á Þing­eyri við Dýra­fjörð 14. desember 1867, fyr­ir hundrað og fimm­tíu árum. Hún var dótt­ir Há­kon­ar Bjarna­son­ar, út­gerðar­manns og kaup­manns á Bíldu­dal og Þing­eyri, og k.h., Jó­hönnu Krist­ín­ar Þor­leifs­dótt­ur.

Há­kon var son­ur Bjarna Gísla­son­ar, pr. á Sönd­um, og k.h., Helgu Árna­dótt­ur, en Jó­hanna Krist­ín var dótt­ir Þor­leifs Jóns­son­ar, pró­fasts í Hvammi í Hvamms­sveit, og k.h., Þor­bjarg­ar Hálf­dán­ar­dótt­ur. Meðal bræðra Ingi­bjarg­ar voru Lár­us H. Bjarna­son, sýslumaður, bæj­ar­fóg­eti og hæsta­rétt­ar­dóm­ari, og Ágúst H. Bjarna­son, doktor í heim­speki, rektor HÍ og fyrsti for­seti Vís­inda­fé­lags Íslend­inga, faðir Há­kon­ar Bjarna­son skóg­rækt­ar­stjóra.

Ingi­björg var í námi hjá Þóru, konu dr. Þor­vald­ar Thorodd­sens nátt­úru­fræðings og dótt­ur Pét­urs Pét­urs­son­ar bisk­ups. Þá stundaði hún nám í Kaup­manna­höfn 1884-85 og 1886-93. Auk þess dvaldi hún er­lend­is 1901-1903 og kynnti sér þá m.a. skóla­hald í Þýskalandi og Sviss.

Ingi­björg var fyrsta kon­an sem kjör­in var á Alþingi. Hún sat á þingi 1922-30, fyrst fyr­ir Kvenna­list­ann eldri, þá fyr­ir Íhalds­flokk­inn og loks Sjálf­stæðis­flokk­inn frá stofn­un hans 1929. Hún var öfl­ug­ur mál­svari kvenna og kvenna­sam­taka á þingi, barðist öt­ul­lega fyr­ir vel­ferðar­mál­um og rétt­ind­um kvenna, barna og ekki síst þeirra sem höll­um fæti stóðu í sam­fé­lag­inu.

Högg­mynd af Ingi­björgu, eft­ir Ragn­hildi Stef­áns­dótt­ur mynd­höggv­ara, var af­hjúpuð við Skála Alþing­is á kvennadag­inn 19. júní árið 2015.

Ingi­björg kenndi við Kvenna­skól­ann í Reykja­vík frá 1903 en þá var hann enn til húsa hjá Þóru Mel­sted í Thor­valds­senstræti, í húsi sem síðar var nefnt Sjálf­stæðis­hús eða Sig­tún og loks Nasa. Er skól­inn flutti í nýtt hús­næði við Frí­kirkju­veg 1906 tók Ingi­björg við stjórn skól­ans og stýrði hon­um til æviloka.

 

Ingi­björg lést 30. október 1941.

 

Morgunblaðið 14. desember 2017.

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31