A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.11.2015 - 07:24 | Morgunblaðið,BIB

Merkir Íslendingar - Hlynur Sigtryggsson

 Hlynur Sigtryggsson
Hlynur Sigtryggsson
« 1 af 2 »
Hlynur fæddist á Núpi í Dýrafirði 5. nóve,ber 1921. Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur, og skólastjóri á Núpi, frá Þröm.

Systir Sigtryggs var Friðdóra, móðir Finns Sigmundssonar landsbókavarðar, afa Hallgríms Geirssonar, lögmanns og fyrrv. stjórnarformanns Árvakurs.

Bróðir Hlyns er Þröstur, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni og einn þeirra fræknu skipherra sem stóðu í ströngu í Þorskastríðunum á áttunda áratugnum.

Eiginkona Hlyns var Jakobína Guðríður Bjarnadóttir sem lést haustið 1970 en dóttir þeirra er Ragnheiður Ingibjörg sálfræðingur, f. 1952.

Hlynur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann stundaði síðan nám í veðurfræði við Kaliforníuháskóla (UCLA) og lauk þaðan MA-prófi 1946. Á árunum 1954-55 var hann við nám og rannsóknarstörf við Stokkhólmsháskóla.

Hlynur var veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í Reykjavík á árunum 1946-52, en var þá ráðinn deildarstjóri Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli. Hann var skipaður veðurstofustjóri sumarið 1963 og gegndi því til hausts 1989.

Um Hlyn sagði tengdasonur hans, Georg A. Bjarnason m.a. í minningargrein: „Hlynur bjó yfir mikilli hugarró og þolinmæði. Hann gat setið tímunum saman og gluggað í bækur og blöð um sín mörgu áhugamál; veðurfræði, eðlisfræði, stærðfræði, stjörnufræði, sögu, tónlist, ljósmyndun, stangveiði og fluguhnýtingar. Hann mundi flest sem hann las og virtist skilja samhengi í veröld vísinda og lista. Hann las stærðfræðisannanir af sama áhuga og aðrir lesa reyfara. Eins og oft er um afburðagáfað fólk hafði hann enga þörf fyrir að upphefja sjálfan sig, og var auðmjúkur og ljúfur í daglegum samskiptum.“

Hlynur lést 14. júlí  2005.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 5. nóvember 2015.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31