A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
11.08.2016 - 06:58 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Halla Eyjólfsdóttir

Halla Eyjólfsdóttir (1866 - 1937)
Halla Eyjólfsdóttir (1866 - 1937)
Hallfríður Eyjólfsdóttir, eða Halla á Laugabóli, fæddist 11. ágúst 1866 í Múla við Gilsfjörð, Austur-Barðastrandarsýslu.

Foreldrar hennar voru Eyjólfur Bjarnason, bóndi þar, f. 7.6. 1837, d. 22.5. 1916, og k.h. Jóhanna Halldórsdóttir húsfreyja, f. 15.6. 1843, d. 29.12. 1883.

Halla ólst hún upp í Múla í stórum systkinahópi. Afar hennar voru báðir prestar í grenndinni, föðurafinn Bjarni í Tröllatungu, sonur Eggerts prests í Stafholti, Bjarnasonar landlæknis Pálssonar, og móðurafinn Halldór Jónsson í Garpsdal, en Halldór var 4. maður frá Lárusi lögmanni Gottrup.

Vorið 1886 kvaddi Halla æskustöðvarnar við Gilsfjörðinn tæplega tvítug og hélt norður yfir heiði þar sem hún réðst sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð innst í Ísafjarðardjúpi. Fáum árum síðar giftist hún Þórði Jónssyni, f. 5.4. 1858, d. 18.10. 1914, syni hjónanna þar Jóns Halldórssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Halla og Þórður eignuðust fjórtán börn en þrjú þeirra misstu þau úr barnaveiki sumarið 1904.

Þórður og Halla reistu sér fyrst bú á Kirkjubóli í Laugardal 1892 en fimm árum seinna tóku þau við búi foreldra hans.

Eftir lát Þórðar sá Halla um búið en árið 1921 giftist hún Gunnari Steini Gunnarssyni frá Hvítanesi í Ögursveit við Djúp. Þau héldu áfram búskap á Laugabóli til 1935 þegar Sigurður, sonur hennar, tók við.

Eftir Höllu liggja tvær ljóðabækur, Ljóðmæli sem komu út árið 1919, og Kvæði sem komu út árið 1940, þremur árum eftir andlát hennar. Bækurnar eru miklar að vöxtum og ljóðin margvísleg að allri gerð. Úrval kvæða hennar sem Guðfinna Hreiðarsdóttir gaf út ásamt æviágripi kom út árið 2008 og nefnist bókin Svanurinn minn syngur.

Sigvaldi Kaldalóns var nágranni Höllu og tóku þau upp samstarf sem fólst oftast nær í því að Halla færði honum kvæðin og hann samdi lög við þau. Má þar nefna Ég lít í anda liðna tíð og Svanur minn syngur.

Halla lést í Reykjavík 6. febrúar 1937.

 

Morgunblaðið 11. ágúst 2016.

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31