Merkir Íslendingar - Gylfi Gröndal
Meðal systkina Gylfa eru Benedikt, fyrrv. forsætisráðherra, Halldór, fyrrv. sóknarprestur, og Ragnar Þórir, framkvæmdastjóri.
Gylfi var kvæntur Þórönnu Tómasdóttur Gröndal, íslenskufræðingi og framhaldsskólakennara og eignuðust þau fjögur börn.
Gylfi lauk stúdentsprófi frá MR 1957 og stundaði nám í íslenskum fræðum við HÍ. Hann starfaði við blaðamennsku í rúm þrjátíu ár, lengst af ritstjóri og sinnti ritstörfum. Gylfi átti ljóð í Ljóðum ungra skálda sem Magnús Ásgeirsson gaf út og Árbók skálda sem Kristján Karlsson annaðist. Hann gaf út alls sjö ljóðabækur og ljóð eftir hann hafa verið valin í kvæðasöfn. Ljóðabækur hans: Náttfiðrildi; Draumljóð um vetur; Döggslóð; Hernámsljóð; Eilíft andartak; Undir hælinn lagt, og Eitt vor enn?
Gylfi skrifaði 30 ævisögur og viðtalsbækur. Sjö af bókum hans fjalla um ævi kvenna, ekki síst þeirra sem voru á undan samtíð sinni í jafnréttismálum, eins og Ástu Árnadóttur málara, Helgu M. Níelsdóttur ljósmóður og Jóhönnu Egilsdóttur verkalýðsforingja. Hann ritaði sögu þriggja fyrstu forseta lýðveldisins, Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns auk fjölda annarra merkra Íslendinga.
Gylfi var virkur í Rótarýklúbbi Kópavogs um árabil og forseti klúbbsins 2005-2006. Hann átti sæti í stjórn Bókasafns Kópavogs 1978-86 og Héraðsskjalasafns Kópavogs 2001-2005.
Gylfi var m.a. tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 fyrir bók sína um Stein Steinar, kjörinn eldhugi Rótarýklúbbs Kópavogs 2001, valinn heiðurslistamaður Kópavogs 2003 og hlaut Steininn, viðurkenningu Ritlistarhóps Kópavogs, árið 2005.
Gylfi lést 29. október 2006.
Morgunblaðið föstudagurinn 17. apríl 2015