Merkir Íslendingar - Gunnlaugur Finnsson á Hvilft
Gunnlaugur Finnsson fæddist á Hvilft í Önundarfirði 11. maí 1928. Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi þar, og kona hans, Guðlaug Sveinsdóttir húsfreyja. Gunnlaugur stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og brautskráðist þaðan með stúdentsprófi árið 1949. Hann var bóndi á Hvilft frá árinu 1950 fram til 2007. Samhliða bústörfum kenndi hann lengstum við Héraðsskólann á Núpi og síðar við barna- og unglingaskóla á Flateyri þar til hann var kjörinn á þing. Árið 1980 varð hann kaupfélagsstjóri á Flateyri og gegndi því starfi í átta ár.
Gunnlaugur Finnsson tók virkan þátt í félagsmálum sveitar sinnar og héraðs. Hann sat um aldarfjórðung í hreppsnefnd Flateyrarhrepps og var oddviti tvö kjörtímabil. Þá var hann formaður Fjórðungssambands Vestfjarða í fjögur ár á þessum tíma. Drjúgum tíma af starfsævi sinni varði Gunnlaugur í þágu þjóðkirkjunnar, sat á kirkjuþingi og í kirkjuráði hálfan þriðja áratug og var jafnframt um tíma í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar. Auk þeirra starfa sem nú hafa verið talin átti hann sæti í ýmsum opinberum og stjórnskipuðum nefndum.
Í alþingiskosningunum 1974 var Gunnlaugur í framboði í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi og hlaut kosningu. Sat hann á þingi til 1978. Í kosningunum 1978 var hann á ný í framboði en náði ekki kjöri í þeim sviptingum sem þá voru í íslenskum stjórnmálum. Hann tók þó sæti sem varamaður á útmánuðum 1979 og sat samtals á sex þingum. Á Alþingi var hann formaður félagsmálanefndar neðri deildar og lét sér einkum annt um mennta-, atvinnu-, samgöngu- og byggðamál.
Gunnlaugur Finnsson var gegnheill samvinnu- og félagshyggjumaður. Hann var sannfærður um að bæði einstaklingum og samfélagi vegnaði best þegar menn ynnu af einlægni saman að sameiginlegu markmiði. Þannig vann hann hin fjölmörgu störf sem hann sinnti fyrir byggðarlag sitt, samvinnuhreyfinguna, kirkjuna og fyrir þjóðina sem alþingismaður.
Gunnlaugur Finnsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði og fyrrverandi alþingismaður, lést 13. janúar 2010.
Af vef Alþingis.