Merkir Íslendingar - Guðmundur Thoroddsen
Hann var sonur Skúla Thoroddsen, sýslumanns á Ísafirði og ritstjóra og alþingismanns á Bessastöðum og í Reykjavík, og k.h. Theodóru Friðriku Thoroddsen skáldkonu.
Foreldrar Skúla voru Jón Thoroddsen, sýslumaður og skáld, og Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, f. Sívertsen, húsfreyja, en foreldrar Theodóru voru Guðmundur Einarsson, prófastur og alþingismaður á Breiðabólstað, og Katrín Ólafsdóttir Sívertsen.
Bræður Skúla voru þjóðþekktir, Sigurður verkfræðingur, faðir Gunnars forsætisráðherra, Þórður, læknir og alþingismaður, faðir Emils tónskálds, og Þorvaldur náttúrufræðingur. Meðal þjóðþekktra systkina Guðmundar má nefna Kristínu Ólínu yfirhjúkrunarkonu; Katrínu, yfirlækni og alþingismann; Bolla borgarverkfræðing; Sigurð verkfræðing og Unni húsmóður á Flateyri, móðir Skúla Halldórssonar, tónskálds.
Guðmundur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Regína M. Benediktsdóttir sem lést 1929 og eignuðust þau sjö börn, en seinni kona hans var Sigurlín Guðmundsdóttir og er sonur þeirra Þrándur Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður, og Ásta Björt, kjördóttir og dótturdóttir.
Guðmundur lauk stúdentsprófi frá MR 1905, embættisprófi í læknisfræði frá Hafnarháskóla 1911, fékk sérfræðileyfi í handlækningum 1923 og fór eftir það í framhaldsnámsferðir til Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands, Frakklands og Englands.
Hann var kandídat og læknir við sjúkrahús í Höfn, læknir í Reykjavík frá 1920, skólalæknir þar um skeið, dósent við HÍ frá 1923, prófessor frá 1924, yfirlæknir á handlæknisdeild og fæðingardeild Landspítalans frá 1931, sérfræðingur við Kleppsspítala frá 1953, forstöðumaður Ljósmæðraskóla Íslands 1931-48, rektor HÍ 1926-27, var formaður Læknafélags Íslands, sat í Læknaráði og í stjórn Rauða kross Íslands.
Guðmundur lést 6. júlí 1968.
Morgunblaðið 1. febrúar 2017.