A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
15.01.2015 - 07:22 | Morgunblaðið,BIB

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

Guðmundur Ingi Kristjánsson.
Guðmundur Ingi Kristjánsson.
« 1 af 3 »
Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.

Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.

Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm.

Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar Inga er Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson.


Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.

Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.

Ljóðabækur Guðmundar Inga eru Sólstafir 1938, Sólbráð 1945, Sóldögg 1958, Sólborgir 1963 og Sólfar 1981. Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.

Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.

 

Morgunblaðið 15. janúar 2015 - Merkir Íslendingar

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31