Merkir Íslendingar - Gísli Þorláksson
Gísli brautskráðist úr Hólaskóla 1649 og fór utan sama haust í Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom aftur til landsins 1652 og var skólameistari á Hólum 1654-1656. Eftir fráfall föður síns var hann kosinn biskup á prestastefnu 21. apríl 1656, aðeins 24 ára. Hann var biskup til dauðadags.
Gísli var friðsamur maður, lítillátur, örlátur og vel látinn, en þótti hvorki mikill lærdómsmaður né hafa háar gáfur. Var og reynslulítill þegar hann tók við embætti, en naut ætternis síns. Fyrri hluta biskupsferils síns stóð hann nokkuð í skugga Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem var atkvæðameiri maður en hann var Vestur-Ísfirðingur, fæddur að Holti í Önundarfirði.
Gísli átti um tíma í hörðum deilum við Jón Eggertsson á Ökrum og fleiri.
Gísli er einna kunnastur fyrir áhuga sinn á myndlist. Hann hafði lengi í þjónustu sinni Guðmund Guðmundsson bíld frá Bjarnastaðahlíð. Eru til mörg verk sem Guðmundur vann fyrir Gísla og Ragnheiði Jónsdóttur þriðju konu hans. Þekktast þeirra er skírnarsárinn í Hóladómkirkju, frá 1674.
Gísli hafði umsjón með prentsmiðjunni á Hólum og lét prenta þar rúmlega 40 bækur. Þekktust þeirra er frumútgáfa Passíusálma Hallgríms Péturssonar 1666.
Gísli var þríkvæntur. Fyrsta kona hans (1658) var Gróa Þorleifsdóttir f. um 1633, d. 14.1. 1660, dóttir Þorleifs Magnússonar sýslumanns á Hlíðarenda; önnur kona (1664) var Ingibjörg Benediktsdóttir, f. 2.5. 1636, d. 24.1. 1673, dóttir Benedikts Halldórssonar sýslumanns á Reynistað, og þriðja kona (1674) var Ragnheiður yngri Jónsdóttir, f. 1646, d. 10.4. 1715, dóttir Jóns Arasonar prests í Vatnsfirði. Gísli var barnlaus með öllum konum sínum.
Gísli lést 22.desember 1684.
Morgunblaðið 11. nóvember 2016.