Merkir Íslendingar - Einar Oddur Kristjánsson
Einar Oddur stundaði nám í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði og í Menntaskólanum á Akureyri. Frá árinu 1968 starfaði Einar Oddur við sjávarútveg, fyrst sem einn af stofnendum og framkvæmdastjóri hlutafélagsins Fiskiðjunnar Hjálms. Hann var síðar stjórnarformaður hlutafélaganna Hjálms, Vestfirsks skelfisks og Kambs.
Einar Oddur sat í hreppsnefnd Flateyrarhrepps 1970-1982, var formaður Sjálfstæðisfélags Önundarfjarðar 1968-1979, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1979-1990 og formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1990-1992.
Einar Oddur sat í stjórn Vinnuveitendafélags Vestfjarða frá árinu 1974. Hann var í aðalstjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1989-1994, stjórnarformaður Vélbátaútgerðarfélags Ísfirðinga frá árinu 1984 og sat í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva 1981-1996. Hann var formaður efnahagsnefndar ríkisstjórnarinnar 1988. Formaður Vinnuveitendasambands Íslands var hann 1989-1992 og sat í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs 1995.
Einar Oddur var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1995 til dánardags. Á Alþingi átti hann sæti í mörgum nefndum en lengst og mest starfaði hann í fjárlaganefnd, var varaformaður hennar 1999-2007 og jafnframt aðaltalsmaður síns flokks í ríkisfjármálum.
Hinn 7.10. 1971 kvæntist Einar Oddur Sigrúnu Gerðu Gísladóttur hjúkrunarfræðingi, f. 20.11. 1943. Börn Einars Odds og Sigrúnar Gerðu eru Brynhildur, Kristján Torfi og Teitur Björn.
Einar Oddur lést 14. júlí 2007.
Morgunblaðið 27. desember 2017.