A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
21.01.2018 - 09:51 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Fréttablaðið,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Einar Benediktsson

Einar Benediktsson (1865 - 1940).
Einar Benediktsson (1865 - 1940).
« 1 af 2 »

21. janúar 1940 - Þennan dag fyrir 78 árum lést skáldið Einar Benediktsson á heimili sínu í Herdísarvík, þá 75 ára að aldri.

 

Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, fæddist að Elliðavatni 31. október 1865,

 

Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður, og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir og var húsmóðir. Einar gekk í Lærða skólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist árið 1884. Því næst nam hann lögfræði og útskrifaðist úr Hafnarháskóla 1892.

 

Einar var athafnasamur maður alla tíð. Stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn. Hann átti þátt í að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906 og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð.

 

Á árunum 1907-21 ferðaðist Einar mikið erlendis, meðal annars til Noregs, Skotlands og Danmerkur auk þess að eyða sjö árum í London. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands árið 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík í Selvogi í Árnessýslu.

 

Um Einar varð snemma til fjöldi sagna, um stórlyndi hans, höfðingsskap og tröllaukna drauma um stóriðju og verksmiðjuframkvæmdir. Ljóð hans eru þess eðlis að aðdáendur hans nánast dýrkuðu hann og töluðu þá gjarnan um Skáldið með stóru essi. Þórbergur Þórðarson var á tímabili ritari hans og undir miklum áhrifum frá honum og til eru sagnir af fundum hans með ungum skáldum, s.s. Tómasi Guðmundssyni, Halldóri Laxness og Steini Steinarr. Ýmsir hafa skrifað um Einar en ítarleg og stórskemmtileg ævisaga hans, eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing, kom út í þremur bindum á árunum 1997-2000.

Einar lést 21. janúar 1940 í Herdísarvík og var jarðsettur, fyrstur Íslendinga, í heiðursgrafreit á Þingvöllum.

 

Fréttablaðið og Morgunblaðið.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31