A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
01.12.2016 - 07:07 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Eggert Ólafsson

Eggert Ólafsson fæddist í Svefneyjum á Breiðafirði 1. desember 1726, sonur Ólafs Gunnlaugssonar bónda og Ragnhildar Sigurðardóttur.

Eggert lærði hjá móðurbróður sínum, Sigurði presti í Flatey, og var í fóstri hjá öðrum móðurbróður, Guðmundi, sýslumanni á Ingjaldshóli. Hann lauk stúdentsprófi í Skálholti, stundaði nám í heimspeki og náttúrufræði við Hafnarháskóla, þótti frábær námsmaður, las m.a. forn, þjóðleg fræði, málfræði, lögfræði og búfræði, var lærður í latínu og grísku og talaði dönsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku.

Á árunum 1752-57 fóru Eggert og Bjarni Pálsson, síðar landlæknir, rannsóknarferð um Ísland. Afraksturinn er Ferðabók Eggerts og Bjarna Pálssonar sem Eggert samdi á dönsku og að mestu leyti einn. Ritið er viðamikil lýsing á náttúru landsins og gæðum, og greinargerð um íslenskt þjóðlíf og landshagi.

Eggert var skipaður varalögmaður sunnan og austan 1767. Hann lét þá byggja upp jörð sína, Hofsstaði í Eyjahreppi, og ákvað að setjast þar að. Sama haust kvæntist hann Ingibjörgu, dóttur Guðmundar, móðurbróður síns. Þau héldu veglega brúðkaupsveislu að fornum sið í Reykholti, dvöldu um veturinn í Sauðlauksdal, héldu um vorið áleiðis að Hofsstöðum en fórust í aftakaveðri á Breiðafirði 1768.

Þjóðin öll syrgði Eggert enda mikils af honum vænst. Hann var framfarasinni og upplýsingarmaður en jafnframt þjóðernissinnaður. Eggert trúði á land, þjóð og framtíð og var mikilvægur fyrirrennari Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna sem höfðu hann í ýmsu að fyrirmynd. Af skáldskap Eggerts er hins vegar Búnaðarbálkur hans þekktastur sem ber fyrst og fremst að skoða sem boðskap í bundnu máli. En önnur skáld hafa ort um hann fögur ljóð, s.s. Matthías Jochumsson, Matthías Johannessen og Jónas Hallgrímsson.


Morgunblaðið 1. desember 2016.

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31