A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
05.10.2016 - 07:04 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Davíð Þ. Sch. Thorsteinsson

Davíð Þ. Scheving Thorsteinsson (1855 - 1938).
Davíð Þ. Scheving Thorsteinsson (1855 - 1938).
Davíð Þ. Scheving Thorsteinsson læknir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 5.október 1855.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson Thorsteinsson eldri, verslunarstjóri í Ólafsvík og á Þingeyri, kaupmaður á Patreksfirði og loks bóndi í Æðey við Ísafjarðardjúp, og Hildur Guðmundsdóttir Thorsteinsson, f. Scheving, húsfreyja.

Þorsteinn var sonur Þorsteins Þórðarsonar, prests á Stað í Grunnavík, en Hildur var dóttir Guðmundar Scheving, sýslumanns á Haga á Barðaströnd.

Hálfbróðir Davíðs, samfeðra, var Jens Pétur Thorsteinsson, útgerðarmaður á Bíldudal og athafnamaður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, faðir Muggs.

Eiginkona Davíðs var Þórunn Gyðríður Stefánsdóttir Scheving Thorsteinsson, f. Stephensen, dóttir Stefáns Péturssonar Stephensen, prófasts í Holti í Önundarfirði og í Vatnsfirði við Djúp en auk þess að vera Stepensen var Þórunn Gyðríður af Knudsenætt, Melsted og af ætt Presta-Högna á Breiðabólstað.

Þau Davíð eignuðust 11 börn en meðal afkomenda þeirra eru þeir hálfbræður Davíð Scheving Thorsteinsson, fyrrv. forstjóri Sólar, og Hilmar Foss, skjalaþýðandi og dómtúlkur.

Davíð lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1876 og embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum 1880. Þá var hann við nám og störf við sjúkrahús í Kaupmannahöfn 1880-81.

Davíð var héraðslæknir á Vestfjörðum og á Vesturlandi, með aðsetur á Vatnseyri, á Brjánslæk, í Stykkishólmi og á Ísafirði. Hann fékk lausn 1917, flutti til Reykjavíkur og var sóttvarnalæknir 1918-19.

Davíð var oddviti Barðastrandarhrepps, sat í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps, var amtráðsmaður í sex ár og einn af forvígismönnum skátahreyfingarinnar hér á landi.

Davíð lést 6. mars 1938.

 

Morgunblaðið 5. október 2016.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31