Merkir Íslendingar - Bjarni Pálsson
Eiginkona Bjarna var Rannveig, dóttir Skúla Magnússonar, landfógeta við Viðey, og k.h., Steinunnar Björnsdóttur Thorlacius.
Meðal barna Bjarna og Rannveigar voru Steinunn, húsfreyja á Hlíðarenda, kona Vigfúsar Þórarinssonar sýslumanns og móðir Bjarna Thorarensen, skálds og amtmanns; Skúli lyfjafræðinemi sem talinn er hafa látist í Kína; Eggert, prestur í Stafholti, og Þórunn, kona Sveins Pálssonar, náttúrufræðings og héraðslæknis.
Bjarni útskrifaðist úr Hólaskóla 1945, lagði síðan stund á náttúrufræði og læknisfræði við Hafnarháskóla, lauk bacc.phil.-prófi 1748 og ex.med.-prófi „með efsta ærutitli“ 1759.
Bjarni fékk rannsóknarstyrk, ásamt Eggerti Ólfassyni, til að fara um Ísland og taka saman skýrslu um jarðir og landshagi hér á landi og er Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar afrakstur þeirra ferða 1752-57. Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir Íslands árið 1760, sat á Bessastöðum til 1763 en síðan í Nesi á Seltjarnarnesi. Hann var í Kaupmannahöfn veturinn 1665-66 við undirbúning læknaskipunar hér, en hann lét sér einmitt mjög annt um skipan þeirra mála, koma á skipan fjórðungslækna á Íslandi, hafði forgöngu um fyrstu lyfsöluna hér og skipan fyrsta lyfsalans og fékk til landsins fyrstu lærðu ljósmóðurina.
Bjarni hafði læknanema alla tíð og kenndi alls 13 læknanemum, rak sjúkravist í þar til gerðu bæjarhúsin í Nesi og var forstöðumaður lyfjabúðar þar uns fyrsti lyfsalinn kom til landsins 1772.
Bjarni ritaði m.a. rit um Varnir gegn fjárkláða og bólusótt og var mikill áhugamaður um náttúrufræði.
Bjarni lést 8. september 1779.
Morgunblaðið 17. maí 2017.