A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
07.07.2016 - 06:34 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal.
Benedikt Gröndal.
Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924. Foreldrar hans voru Sigurður Gröndal, rithöfundur, yfirkennari í Reykjavík og hótelsjóri að Valhöll á Þingvöllum og k.h., Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.

Sigurður var sonur Benedikts Gröndal, skálds og skólastjóra, af Presta-Högna ætt, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur, en Mikkelína María var dóttir Sveins Árnasonar, bónda í Hvilft í Önundarfirði, og Rannveigar Hálfdánardóttur, systur Örnólfs í Skálavík, afa Haraldar J. Hamar ritstjóra.

Meðal sex systkina Benedikts má nefna Halldór Gröndal sóknarprest og Gylfa Gröndal rithöfund.

Kona Benedikts var Heidi Jaeger Gröndal húsfreyja sem lést 2012 og eignuðust þau þrjá syni, Jón, Tómas og Einar.

Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946 en með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-58 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-69.

Benedikt var landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlands 1959-78 og þingmaður Reykvíkinga 1978-82. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-80 og forsætisráðherra minnhlutastjórnar Alþýðuflokksins 1979-80.

Benedikt var formaður Útvarpsráðs 1957-71, fulltrúi á allsherjarþingum og hafréttarráðstefnu SÞ, var formaður undirbúningsnefndar íslensks sjónvarps, sat í stjórn Seðlabanka Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og Nýbýlastjórnar, í stjórn þingmannasambands NATO og sat í fjölda nefnda um endurskoðun hinna ýmsu laga. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991.

Benedikt sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði.

Benedikt lést 20. júlí 2010.

Morgunblaðið 7. júlí 2016.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31