Merkir Íslendingar - Ásgeir Hannes Eiríksson
Foreldrar hans voru Eiríkur Ketilsson stórkaupmaður og Sigríður Ásgeirsdóttir lögfræðingur.
Móðir Eiríks var Guðrún Eiríksdóttir, veitingakona í Reykjavík og hóteleigandi í Hafnarfirði, frá Járngerðarstöðum, en Sigríður var dóttir Ásgeirs Þorsteinssonar, efnaverkfræðings og forstjóra, og Elínar Jóhönnu Guðrúnar, dóttur Hannesar Hafstein, skálds og ráðherra, og k.h., Ragnheiðar Hafstein.
Systur Ásgeirs Hannesar, samfeðra: Guðrún Birna og Dagmar Jóhanna, en systkini hans, sammæðra: Baldvin Hafsteinsson og Elín Jóhanna Guðrún Hafsteinsdóttir.
Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs Hannesar: Valgerður Hjartardóttir og börn þeirra: Sigríður Elín, Sigurður Hannes, og Sigrún Helga.
Ásgeir Hannes lauk prófi við Verslunarskóla Íslands 1967 og prófi frá Hótel- og veitingaskóla Íslands 1971. Hann stundaði verslunarstörf í Reykjavík, var auglýsingastjóri DB við stofnun blaðsins og rak m.a. Pylsuvagninn við Lækjartorg.
Ásgeir Hannes gekk til liðs við Albert Guðmundsson við stofnun Borgaraflokksins vorið 1987 og var þingmaður flokksins 1989-91.
Ásgeir Hannes var forseti Sambands dýraverndunarfélaga á Íslandi, sat í stjórn samtakanna Gamli miðbærinn, var formaður Karatefélags Reykjavíkur, sat í stjórn Verndar, SÁÁ og Krýsuvíkursamtakanna og Félags áhugamanna um frjálsan útvarpsrekstur. Ásgeir Hannes skrifaði fjölda dagblaðsgreina, var ritstjóri blaða og sendi frá sér bækur, m.a. um gamansögur og hnyttin tilsvör eftirminnilegra einstaklinga. Hann var vinsæll og hlý persóna, umhyggjusamur gagnvart samborgurum sem stóðu höllum fæti, hafði skarpar og oft frumlegar skoðanir, var annálaður sagnamaður og sjálfur hnyttinn í tilsvörum.
Ásgeir Hannes lést 14. febrúar 2015.
Morgunblaðið 19. maí 2017.