A A A
  • 2009 - Sigmundur Logi Þórðarsson
10.03.2017 - 21:03 | Björn Ingi Bjarnason,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Árni Oddsson

Kópavogsfundurinn. -  Úr málverki eftir Halldór Pétursson.
Kópavogsfundurinn. - Úr málverki eftir Halldór Pétursson.
Árni Oddsson lögmaður fæddist í Skálholti árið 1592. Foreldrar hans voru Oddur Einarsson biskup og fyrri kona hans, Margrét Helgadóttir. Oddur var sonur Einars Sigurðssonar í Heydölum, helsta sálmaskálds þjóðarinnar.

Árni fór til náms í Kaupmannahöfn 1609, kom aftur 1612 og var þegar gerður að skólameistara Skálholtsskóla og gegndi því embætti til 1615. Árið 1617 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að reka erindi fyrir föður sinn, sem átti í útistöðum við Herluf Daa höfuðsmann, og kom aftur til landsins árið eftir og unnu þeir feðgar svo málið.

Árni varð Skálholtsráðsmaður 1620 og árið 1632 varð hann svo lögmaður sunnan og vestan og hélt því embætti í 32 ár. Einnig var hann sýslumaður í Árnesþingi og umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða. Hann þótti sinna embættum sínum vel og af dugnaði og bera hag landsmanna fyrir brjósti, enda var hann vinsæll. Hann bjó lengst á Leirá í Leirársveit.

Árni undirritaði erfðahyllinguna við konung á Kópavogsfundinum 1662. Sögur segja að Íslendingar hafi verið tregir til, en Hinrik Bjelke, höfuðsmaður á Íslandi, hafi hótað að beita hervaldi og þá hafi Árni undirritað yfirlýsinguna og tárfellt um leið. Samtímaheimildir staðfesta ekki þessa frásögn en sögunni um tárvota vanga Árna var hins vegar mjög haldið á lofti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld.

Hins vegar greina annálar frá því að eftir undirskriftina hafi verið haldin mikil og vegleg veisla með flugeldasýningu og fallbyssuskotum. Mun það vera í fyrsta sinn sem getið er um flugelda á Íslandi.

Fyrri kona Árna var Helga, dóttir Jóns Vigfússonar sýslumanns á Galtalæk, en hún dó úr bólusótt eftir fárra ára hjónaband. Síðari kona hans, sem hann kvæntist 1617, var Þórdís Jónsdóttir, f. 1600, d. 1.9. 1670, frá Sjávarborg í Borgarsveit. Á meðal barna þeirra voru Sigurður Árnason, lögréttumaður í Leirárgörðum, og Helga, kona Þórðar Jónssonar prests og fræðimanns í Hítardal.

Árni drukknaði eða varð bráðkvaddur í laug á Leirá 10. mars 1665.

 

Morgunblaðið 10. mars 2017.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31