A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
27.06.2016 - 07:02 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Arngrímur Jónsson

Arngrímur Jónsson.
Arngrímur Jónsson.
Arngrímur Jónsson lærði fæddist 1568 á Auðunarstöðum í Víðidal, V-Hún. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, bóndi þar, og k.h. Ingibjörg Loftsdóttir. Hann flutti ungur til frænda síns Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum, en Guðbrandur og Jón, faðir Arngríms, voru systrabörn.

Arngrímur varð stúdent úr Hólaskóla 1585 og fór til náms í Kaupmannahafnarháskóla, kom aftur til Íslands 1589, fékk prestsveitingu á Melstað í Miðfirði en var með aðstoðarprest og var sjálfur rektor á Hólum. Hann varð síðan formlega aðstoðarmaður Guðbrands biskups árið 1596. Hann fór til Kaupmannahafnar í erindum Guðbrands 1892-1893 og lét prenta rit sitt, Brevis commentarius de Islandia, þar sem hann hrakti skrif erlendra manna um Ísland sem byggðust á hindurvitnum. Hann vakti athygli með skrifum sínum og kveikti áhuga erlendra fræðimanna á Íslendingasögunum. Honum var þá falið með konungsboði að safna saman fornritum og skjölum sem mætti nota við að skrifa um sögu Danmerkur, þýða þau og senda utan.

Arngrímur skrifaði fjölda rita en hans höfuðverk er Crymogæa sem er saga Íslendinga frá öndverðu. Þótt Arngrímur skrifaði það rit á latínu, svo erlendir fræðimenn gætu lesið það, þá ritaði hann margt á íslensku og varð helsti talsmaður þess að íslensk tunga væri þjóðardýrpripur Íslendinga sem bæri að varðveita. Eftir að Guðbrandur lést varð Arngrímur prestur á Melstað til dauðadags.

Fyrri kona Arngríms var Sólveig Gunnarsdóttir, sem kölluð var kvennablómi, dóttir Gunnars Gíslasonar klausturhaldara á Víðivöllum og Hólaráðsmanns, og k.h. Guðrúnar Magnúsdóttur Jónssonar biskups Arasonar. Sólveig dó 1627 og giftist Arngrímur þá Sigríði yngri (f. 1601), dóttur Bjarna Gamalíelssonar, sem var rektor Hólaskóla um skeið, og k.h. Þuríðar Guðmundsdóttur. Arngrímur átti alls 9 börn sem upp komust, en margir niðja Arngríms nefndu sig Vídalín.

Arngrímur lærði lést 27. júní 1648.

 

Morgunblaðið 27. júní 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31