Merkir Íslendingar - Ágúst M. Sigurðsson
Ágúst fæddist á Akureyri 15. mars 1938, sonur Sigurðar Stefánssonar, prófasts og síðar vígslubiskus á Möðruvöllum í Hörgárdal, og Maríu Júlíönu Kristjönu Ágústsdóttur cand.phil.
Sigurður var sonur Stefáns Hannessonar, bónda á Þrándarstöðum í Kjós, og Guðrúnar Matthíasdóttur, húsfreyju og veitingakonu í Reykjavík, en María var dóttir Ágústs Jósefssonar, bæjarfulltrúa og heilbrigðisfulltrúa í Reykjavík, sem skrifaði fróðlegar endurminningar um mannlíf í Reykjavík, og Pauline Charlotte Andreasdóttur, f. Sæby.
Eftirlifandi eiginkona Ágústar er Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, kennari og prestsfrú, dóttir Kirstínar Láru Sigurbjörnsdóttur, kennara í Ási í Reykjavík og Ásgeirs Einarssonar, héraðsdýralæknis í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Börn Guðrúnar Láru og Ágústs eru Lárus Sigurbjörn, umferðarverkfræðingur á Sjálandi, og María, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Ágúst lauk stúdentsprófi frá MA 1959, embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1965, stundaði framhaldsnám í Den nske Folkekirke við Árósarháskóla, lauk þaðan prófum og fór fjölda námsferða til Danmerkur, Noregs, Þýskalands og Ísraels.
Ágúst var símstöðvarstjóri á Möðruvöllum 1964-66, aðstoðarmaður föður síns þar og sóknarprestur frá 1965, sóknarprestur í Vallanesi á Völlum frá 1966, í Ólafsvík frá 1970, á Mælifelli í Skagafirði frá 1972 og talsímavörður þar, sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn frá 1983 og umsjónarmaður Húss Jóns Sigurðssonar, sóknarprestur á Prestbakka í Hrútafirði frá 1989 og prófastur Húnavatnsprófastsdæmis frá 1999 og til 2000.
Ágúst kenndi við fjölda skóla, var afkastamikill rithöfundur og margfróður fræðimaður, formaður Tónlistarfélags Skagafjarðar og Sálarrannsóknafélags Skagafjarðar og sat í sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, auk annarra trúnaðarstarfa.
Vestfirska forlagið gaf út nokkrar af bókum hans.
Ágúst lést 22. ágúst 2010.
Morgunblaðið þriðjudagurinn 15. mars 2016.