A A A
  • 1968 - Freyr Jónsson
  • 1973 - Sigmar Örn Sigþórsson
  • 1996 - Viktoría Fönn Kjerúlf
12.02.2017 - 09:37 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

„Með gæsahúð allan tímann“

Tónskáld og tveir flytjendur, þau Finnur Torfi Stefánsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfús Birgisson. Ljósm.:   Morgunblaðið/Eggert.
Tónskáld og tveir flytjendur, þau Finnur Torfi Stefánsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfús Birgisson. Ljósm.: Morgunblaðið/Eggert.
« 1 af 2 »
Á 15:15 tónleikum í Norræna húsinu í dag, sunnudaginn 12. febrúar 2017 verða frumflutt lagaflokkur eftir Snorra Sigfús Birgisson og svíta eftir Finn Torfa Stefánsson. „Ég er utangarðsmaður í íslenskri tónlist og finnst leiðinlegt að þurfa að koma verkum mínum á framfæri,“ segir sá síðarnefndi.

Snorri Sigfús Birgisson og Finnur Torfi Stefánsson eru báðir Önfirðingar; Snorri Sigfús með ræturnar á Flateyri og Finnur Torfi að Görðum og Kaldá í Önundarfirði.

Til sjávar og sveita með Hallgerði langbrók er yfirskrift tónleika í 15:15 tónleikasyrpunni sem fram fara í Norræna húsinu í dag, sunnudag 12. febrúar 2017, kl. 15:15. Fyrir hlé frumflytja Hanna Dóra Sturludóttir mezzosópran og Snorri Sigfús Birgisson, píanóleikari og tónskáld, lagaflokk Snorra Sigfúsar sem nefnist Níu lög að vestan. Eftir hlé frumflytja Ingibjörg Guðjónsdóttur sópran, Edda Þórarinsdóttir leikkona og Caput-hópurinn undir stjórn Guðna Franzsonar svítuna Hallgerður langbrók eftir Finn Torfa Stefánsson sem byggir á samnefndri óperu Finns í fullri lengd.

 

Upphafið á langri hringferð

„Lagaflokkurinn Níu lög að vestan varð til í Kaupmannahöfn í sumar sem leið. Um er að ræða útsetningar fyrir mezzosópran og píanó á níu þjóðlögum sem varðveitt eru hljóðrituð í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar og aðgengileg á vefnum ismus.is. Lögin eru öll úr Dalasýslu, en þangað á Hanna Dóra ættir að rekja og því eru útsetningarnar tileinkaðir henni,“ segir Snorri Sigfús Birgisson og lætur þess getið að þau Hanna Dóra muni frumflytja enn aðrar útsetningar á þjóðlögum úr Dalasýslu á hádegistónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 23. mars.

„Ég er fastur í Dalasýslunni sem stendur en ætlunin er að „fara hringinn“ og hlusta á lög úr öllum sveitum landsins,“ segir Snorri Sigfús og bætir við að lögin í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar rúmist á u.þ.b. 700 klst. af upptökum sem Helga Jóhannsdóttir, Hallfreður Örn Eiríksson og Jón Samsonarson hafi í flestum tilvikum hljóðritað á sjöunda áratug síðustu aldar á ferðalögum sínum um landið.

„Ég byrjaði að grúska í þessu efni fyrir um fimmtán árum meðan það var enn einungis til á segulbandsspólum. Það er auðvitað margfalt þægilegra að nálgast lögin eftir að þau voru sett á netið. Það gæti tekið mig mörg ár að vinna mig í gegnum þetta allt saman en það gerir ekkert til – þetta er langhlaup. Segja má að þessi níu lög séu upphafið á langri hringferð.“ Að sögn Snorra Sigfúsar hyggst hann, þegar útsetningar hans hafi verið fluttar á tónleikum, deila nótunum á netinu og nafngreina heimildarmennina. „Ef til vill flýtur það fyrir öðrum sem gætu hugsað sér að nota lögin á sinn hátt. Það væri gaman ef einhver þessara laga kæmust í umferð.“

Að sögn Snorra Sigfúsar eru lögin skemmtilega fjölbreytt, sem kallar á ólíkar nálganir. „Sum laganna rekst maður á í fleiri en einni upptöku og með ólíkum blæbrigðum, sem gaman er að nota í sömu útsetningunni. Fyrir vikið er maður líka ófeimnari að breyta stöku tóni þegar við á, þar sem efnið er hvort sem er lifandi,“ segir Snorri Sigfús og bendir á að heimildarmennirnir sem syngja lögin níu eru allir fæddir á ofanverðri nítjándu öld og hafi verið komnir á efri ár þegar þeir sungu inn á segulband.

„Það er ekki alltaf auðvelt að heyra orðaskil hjá þeim. Það lá því beint við að setja annan texta við sum lögin svo lengi sem bragarhættirnir héldu sér. Fjögur laganna eru sungin við upprunalegan texta, eitt við kvæði eftir Steingrím Thorsteinsson og fjögur við kveðskap eftir tvíburasysturnar Herdísi og Ólínu Andrésdætur frá Flatey í Breiðafirði sem fæddar voru 1858.“

 

Skemmtilegt að skrifa óperur

„Svítan er hugsuð sem sýnishorn og byggir á sönglesi og aríum Hallgerðar með það markmið að draga upp mynd af þeirri miklu konu sem lýst er í Njálu,“ segir Finnur Torfi Stefánsson um svítuna Hallgerður langbrók sem byggir á samnefndri óperu sem hann lauk við að semja árið 2013. Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran syngur hlutverk Hallgerðar og Edda Þórarinsdóttir leikkona les upp texta á milli atriða til að setja tónlistina í samhengi við atburðarásina.

„Ég vann texta óperunnar sjálfur með póstmódernískri nálgun þar sem ég nota textann úr Njálu í bland við bæði fornan og nýjan kveðskap,“ segir Finnur og tekur fram að ævi Hallgerðar hafi reynst svo efnismikil að hann hafi fljótt ákveðið að einskorða sig við fyrri hlutann. „Hallgerður er fyrsta kvenréttindakona Íslands. Karakter hennar í Njálu er mjög flókinn og marghliða – hún hefur alla þræði í sér. Mér finnst hún mjög heillandi, því hún er bæði kvenleg og grimm. Óperan hefst þegar Hallgerður Höskuldsdóttir er barn og Hrútur lýsir þjófsaugum hennar og lýkur með dauða Þjóstólfs fóstra hennar eftir að hann hefur drepið fyrstu tvo eiginmenn hennar, þ.e. Þorvald og Glúm. Undir lok verksins stendur Hallgerður því ein eftir með Þorgerði Glúmsdóttur unga að aldri. Óperan um Hallgerði og Gunnar og baráttu þeirra við öfund hins smáa samfélags bíður einhvers kollega minna eða betri tíma hjá mér,“ segir Finnur, sem í augnablikinu vinnur að verki um Þórdísi Súrsdóttur, systur Gísla. „Þegar ég er búinn með Þórdísi er ekki loku fyrir það skotið að ég kíki á Hallgerði og Gunnar, því það verður meiriháttar efni og alltaf ógurlega skemmtilegt að skrifa óperur.“

Að sögn Finns á Guðni Franzson hugmyndina að því að hann ynni 45 mínútna útdrátt úr óperunni sem tæki tvær klukkustundir í flutningi og samin er fyrir níu einsöngvara, kór og sinfóníuhljómsveit, en útdráttinn endurútsetti Finnur fyrir minni hljómsveit. „Ef ekki væri fyrir Guðna væri ekki verið að flytja þessa tónlist núna. Ég hef hlustað á Ingibjörgu árum saman og hún hefur mjög hentuga rödd í hlutverk Hallgerðar, þar sem hún er lýrískur sópran. Ekki skemmir fyrir hversu músíkölsk hún er og með gott tóneyra, því það er ekki auðvelt að syngja þetta,“ segir Finnur og tekur fram að tónlistin sé engu að síður afar lagræn. „Tónlistin er hins vegar mjög krefjandi, tónsviðið vítt og takturinn flókinn. Þetta reynir því töluvert á hana en mér sýnist að Ingibjörg muni glansa í þessu hlutverki,“ segir Finnur, sem heyrt hafði eina æfingu með hljómsveit og einsöngvara þegar blaðamaður ræddi við hann. „Þó að ég vissi nokkuð vel hvernig verkið myndi hljóma kemur túlkunin alltaf á óvart. Ég sat því með gæsahúð allan tímann. “

Spurður hvort hann vinni að því að koma óperunni í heild sinni á svið segist Finnur fyrst og síðast lifa fyrir tónlistina. „Auðvitað væri gaman að fá óperuna flutta í heild sinni, það er bara svo mikið fyrirtæki. Ég er utangarðsmaður í íslenskri tónlist og finnst leiðinlegt að þurfa að koma verkum mínum á framfæri,“ segir Finnur. Þess má að lokum geta að miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.

 

Morgunblaðið  sunnudaginn 12. febrúar 2017.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31