A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
27.03.2016 - 09:01 | Vestfjarðatíðindi,Hallgrímur Sveinsson

Lykill að skilningi á málflutningi Jóns Sigurðssonar

Jón Sigurðsson. Fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, dáinn 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn.
Jón Sigurðsson. Fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, dáinn 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn.
Ritstjóri nokkur í Kaupmannahöfn, Carl Bille, ásakaði Jón Sigurðsson um að hafa í áraraðir ráðist á Danmörku og Dani á óbilgjarnan hátt og reynt að vekja upp hatur og óánægju Íslendinga gegn því landi sem þeir tilheyrðu. Að gefnu því tilefni skilgreindi Jón stjórnmálastarf sitt svo:

„Ég hef aldrei haft neitt á móti Danmörku eða Dönum almennt og enn síður ráðist á þá. Aftur á móti hef ég af eigin rammleik reynt að varpa ljósi á samband Íslands og Danmerkur og stuðla að því að taka megi enda sú óstjórn, sem óneitanlega hefur viðgengist og ríkir enn á Íslandi, og allir hafa viðurkennt sem hafa tjáð sig um íslensk málefni í mörg hundruð ár. Að ég sé kominn í andstöðu við núverandi stefnu danskra stjórnvalda í íslenskum málum er rétt, en andstaða mín hefir alltaf verið grundvölluð á nákvæmum rannsóknum og rökum.“ (Guðjón Friðriksson: Jón Sigurðsson, seinna bindi, bls. 426).

Í þessari tilvitnun er í hnotskurn lykillinn að skilningi á stjórnmálavafstri Jóns Sigurðssonar. Ekkert minna.
Íslendingar bjuggu lengi við Rentukammer. Þar var stjórnsýslan og óstjórnin sem Jón Sigurðsson gagnrýndi á hispurslausan en kurteisan hátt. Þar voru mál í athugun árum, áratugum og jafnvel öldum saman.

En hlustuðu Danir á Jón?

Flest bendir til að svo hafi verið. Þeir báru mikla virðingu fyrir honum, þó uppreisnarmaður væri í augum margra þeirra. Kom þar margt til, einkum þó hversu maðurinn var glæsilegur, starfsamur og geðþekkur fulltrúi þjóðar, sem ekki var almennt hátt skrifuð þar ytra. Hann var viðræðugóður og glaður maður. Það hefur fallið vel í kramið hjá Dönum.

En hvað ætli Jón okkar forseti hefði sagt um íslensku stjórnsýsluna í dag, sem margir telja ónýta, væri hann á meðal vor? Um það er auðvitað ekki hægt að fullyrða, en ætli hann mundi ekki kannast við stílinn og verkleysið: Málið er í athugun.

Við erum að skoða málið. Við gefum því eitt ár og svo sjáum við til. Málið er í rannsókn. Við munum fylgjast með!

Hallgrímur Sveinsson

Vestfjarðatíðindi í mars 2016.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31