Lögðu undir sig heimavistarskóla að Núpi í Dýrafirði
Hljómsveitin Sniglabandið er um þessar mundir að gera nýja plötu, sem hlotið hefur nafnið Íslenskar sálarrannsóknir. Meðlimir sveitarinnar hafa undanfarna daga dvalið á Núpi í Dýrafirði þar sem þeir hafa verið við upptökur og í eins konar sálarrannsóknavinnu.
"Þetta hefur gengið rosalega vel. Við vorum búnir með fjögur lög áður en við fórum vestur og náðum svo að klára önnur fjögur lög á Núpi. Þetta er það besta sem hljómsveitir geta gert þegar þarf næði og einbeitingu til að vinna og tengjast saman, menn eru ekki að skjótast hingað og þangað eins og oft vill verða í amstri dagsins í borginni," segir Pálmi Sigurhjartarson, píanóleikari Sniglabandsins.
Gamli heimavistarskólinn á Núpi hefur því verið notaður sem hljóðver að undanförnu. "Þetta er frábær staður, við vorum með gömlu heimavistina fyrir okkur, settum magnarana í tóma sundlaugina og trommusettið í leikfimisalinn. Ég fékk að nota gamalt upright Baldwin-píanó í einu laganna, píanóið stóð einsamalt úti í horni matsalarins og gaf frá sér magnaðan hljóm sem á eftir að gefa laginu Þú bíður allavega eftir mér, eftir Megas, nýjan og í senn eldgamlan tón. Við unnum svo frá níu á morgnana til eitt á næturnar, þetta var alveg frábært," útskýrir Pálmi en þeir félagar voru nýkomnir í höfuðborgina þegar blaðamaður náði tali af honum.
Platan sem sveitin vinnur nú að kemur út í byrjun októbermánaðar í tilefni af þrjátíu ára afmæli Sniglabandsins. Sveitin ætlar að halda upp á afmælið með heljarinnar tónleikum í Eldborgarsal Hörpu 3. október. "Við erum að endurútsetja íslensk alþýðulög frá ýmsum tímum. Við erum að finna sálina í vel sömdum lögum, sem eiga margt annað inni. Það er pínu tilgangurinn með plötunni," útskýrir Pálmi.
Eitt lag af þessari væntanlegu plötu hefur heyrst í sumar en það er lagið Ég er að tala um þig eftir Jóhann G. Jóhannsson sem Björgvin Halldórsson söng upphaflega. "Við höfum nú gert það að okkar og erum mjög sáttir við útkomuna. Við erum að útsetja íslensk alþýðulög frá ýmsum tímabilum í tónlistarsögunni og hefur það verið verkefni þessa árs að vinna úr hugmyndum og velja lög, eða kannski meira að leyfa lögunum að koma til okkar, eins og þau hafa flest gert. Sum lögin hafa rúllað fram og aftur í tempóum og stílum þangað til við erum orðnir sáttir og finnum réttan tilgang með útsetningunni, að gefa góðu lagi annað líf og jafnvel lengja lífdaga þess," segir Pálmi. "Næsta útspil okkar verður tónlistarperla sem við vitum að mörgum þykir vænt um, Villtir strengir eftir Oddgeir Kristjánsson. Það lag var t.d. að detta út af lagalistanum af því einfaldlega að við vorum ekki komnir niður á útsetningu sem við vorum sáttir við, en í vestfirsku kyrrðinni fundum við svarið og erum mjög ánægðir með útkomuna."
Þótt Sniglabandið hafi ekki verið að spila um hverja helgi að undanförnu þá hefur sveitin hist vikulega síðan í janúar til þess að vinna í tónlist. "Við byrjuðum fyrstu vikuna í janúar og höfum hist vikulega síðan. Þetta hefur verið mikil útsetningarvinna og hópar þurfa líka að koma þessu andlega saman," bætir Pálmi við.
Þeir félagar hafa einnig verið með útvarpsþætti í sumar á Rás 2 en hafa oftast sent þá út utan af landi. "Við vorum með þáttinn á Ísafirði síðustu helgi og fórum svo á Núp í leiðinni í bæinn. Við sendum þáttinn út frá Sauðárkróki um helgina." Sniglabandið kemur einmitt fram á Gærunni á Sauðárkróki í kvöld, á Hótel Mælifelli.
Fréttablaíð laugardaginn 15. ágúst 2015