A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
04.11.2016 - 07:43 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Lítið en öflugt leikhús í beinum tengslum við sögu Vestfjarða

Elfar Logi Hannesson.
Elfar Logi Hannesson.
« 1 af 2 »

Nýjasta sýning Kómedíuleikhússins fjallar um einbúann Gísla í Uppsölum Metnaður í menningarstarfinu á Vestfjörðum

Aldrei hafa verið fleiri góðar ástæður til að heimsækja Vestfirði yfir vetrarmánuðina. Þar má finna mikla náttúrusæld, einstakar laugar og áhugaverð söfn. Það sem meira er: Vestfirðingar eru menningarsinnað fólk og metnaðarfullt leikhússtarf á svæðinu.

„Menningarlífið hér er mjög fjölbreytt og hefur Ísafjörður t.d. komist á kortið sem mikill tónlistarbær, og eins er margt um að vera í þorpunum í kring. Þannig er á Þingeyri starfrækt öflugt áhugamannaleikfélag sem setur upp veglega barnaleiksýningu hvern vetur og í þetta skipti sýna þau Dýrin í Hálsaskógi,“ segir Elfar Logi Hannesson.

Sjálfur er Elfar aðaldriffjöðrin í starfi Kómedíuleikhússins (www.komedia.is), eina atvinnuleikhúss Vestfjarða. Leikhúsið var stofnað árið 1997 í Reykjavík en fluttist til Vestfjarða árið 2000. Elfar er eini fastráðni starfsmaðurinn en hæfileikafólk úr ýmsum áttum leggur hönd á plóg. Hafa margar uppfærslur Kómedíuleikhússins vakið verðskuldaða athygli og má þar t.d. nefna verk um Gísla Súrsson sem var verðlaunað á erlendum leiklistarhátíðum.

„Fyrsta uppfærsla leikfélagsins var á verki eftir Samuel Beckett, en öll verk sem á eftir komu hafa tengst vestfirskri sögu á einn eða annan hátt,“ segir Elfar. „Eru þetta verk sem fjalla t.d. um hetjur Íslendingasagnanna, eða þjóðhetjur og listamenn á borð við Jón Sigurðsson, Mugg og Sigvalda Kaldalóns.“

 

Himnarnir opnuðust

Nýjasta sýning Kómedíuleikhússins fjallar um einbúann Gísla á Uppsölum en frumsýningin var í september. Eins og venjan er með frumsýningar leikfélagsins var fyrsta sýningin haldin skammt frá heimaslóðum Gísla, í Selárdalskirkju. „Það var stórkostleg stund og virtist eins og Gísli væri þar með okkur. Var þungskýjað allan daginn en hálftíma áður en sýningin hófst opnuðust himnarnir og sólin skein inn um glugga kirkjunnar,“ segir Elfar.

Elfar skrifaði handritið með Þresti Leó Gunnarssyni. Þröstur leikstýrir og Elfar leikur hlutverk Gísla en Svavar Knútur Kristinsson semur tónlistina. Útkoman er merkileg sýning sem gefur áhorfendum innsýn í ævi og hugarheim óvenjulegs manns.

„Það voru mjög skiptar skoðanir um það hér í samfélaginu þegar tók að fréttast af þessu verkefni okkar. Sumum leist ekkert á þetta og óttuðust að útkoman myndi verða verk sem gerði grín að Gísla.“

Vissulega var Gísli á Uppsölum ekki eins og fólk er flest og þótti það mikill viðburður þegar Ómar Ragnarsson fréttamaður tók frægt sjónvarpsviðtal við þennan aldna einbúa, og eins þegar Árni Johnsen, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, ræddi við og myndaði Gísla. „Jafnvel sveitungar hans vissu ekki af þessum manni. Sjálfur er ég frá Bíldudal og eins og nánast allir aðrir sá ég Gísla fyrst í sjónvarpinu og hafði aldrei fyrr heyrt á hann minnst,“ segir Elfar.

 

Hugsanir einbúans

Ævi Gísla var merkileg fyrir margra hluta sakir og sumir kaflarnir í sögu hans átakanlegir. Styðst sýningin við bókina Eintalsem hefur að geyma ljóð, dagbókabrot, minningar og ýmsar hugleiðingar Gísla, en bókin byggist á gögnum sem fundust að Gísla látnum. „Þegar átti að ganga frá eigum hans kom í ljós fullt af efni, blöð og snifsi inni í bókum, með ljóðum, sálmum og minningabrotum. Í dagbókum sínum skrifar Gísli t.d. á áhrifaríkan hátt um æsku sína og hrottalegt einelti sem hann varð fyrir í skóla. Hann skrifar líka mjög fallega, en af ákveðinni biturð, um móður sína en samband þeirra var mjög sérstakt.“

Elfar segir að það efni sem Gísli skildi eftir sýni að hann var heimspekingur. Í einverunni lét hann hugann reika og velti ýmsu fyrir sér. „Það er margt sem verður til þess að hann einangrast. Eineltið setti mark sitt á hann, en greinilegt er að Gísli var bráðgreindur og hann vildi fara suður til að mennta sig, og jafnvel til útlanda. Faðir hans fellur frá á mjög sviplegan máta þegar Gísli er ungur, og bræður hans flytja burt. Loks er Gísli einn eftir í kotinu með móður sinni, sem kemur í veg fyrir að hann fari og láti sína eigin drauma rætast.“

Á sínum yngri árum virtist sem Gísla væru allir vegir færir. „Hann þótti efnilegur og myndarlegur ungur maður en náði einhvern veginn ekki að dansa í takt við lífið.“

 

Menningarveisla á Bíldudal

Framundan hjá Kómedíuleikhúsinu eru sýningar á verkinu um Gísla á Uppsölum í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði á morgun, laugardaginn 5. nóvember, og í Einarshúsi á Bolungarvík viku síðar, sunnudaginn 13. nóvember. 19. nóvember verður síðan haldin mikil matar- og listaveisla á Bíldudal þar sem dagskrá kvöldsins samanstendur af kvöldverði með dýrindis hangikjöti, leiksýningu og loks tónleikum Lay Low.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31