Leiðin Reykjavík-Ísafjörður 60 km styttri eftir átta ár
Líklegt má telja að vesturleiðin svokallaða taki við af Djúpvegi sem aðalvegurinn milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Rætist áætlanir Vegagerðarinnar um endurbætur Vestfjarðavegar verður hann orðin 60 kílómetrum styttri en Djúpvegur eftir átta ár.
Vestfirðir verða í forgangi á næstu árum, samkvæmt samgönguáætlun, sem nú er í meðförum Alþingis, en Stöð 2 hefur í fréttaröð að undanförnu greint frá þeim vegarbótum sem þar eru áformaðar.
Þar ber Dýrafjarðargöng hæst, sem fyrirhugað er að bjóða út í haust. Samhliða verður hafist handa við endurnýjun vegarins yfir Dynjandisheiði. Þriðja stórverkefnið framundan er svo að leggja nýjan veg um Gufudalssveit en óvíst er hvort heimilt verður að fara um Teigsskóg.
Það má í raun líta á þetta sem eitt heildstætt verkefni; að eyða fjórum verstu köflunum á Vestfjarðavegi. Þeir eru; Hrafnseyrarheiði, Dynjandisheiði og síðan Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Þessa hindranir valda því að Djúpvegur er núna aðalleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, 455 kílómetra löng, þótt vesturleiðin sé í dag orðin styttri, en hún er 448 kílómetra löng, eftir síðustu endurbætur í Kjálkafirði og Kerlingarfirði.
En vesturleiðin á eftir að styttast verulega á næstu árum; með Dýrafjarðargöngum um 27 kílómetra, með endurbótum á Dynjandisheiði um 5 kílómetra og, ef leyfi fæst til að fara um Teigsskóg og Þorskafjörð, næst 22 kílómetra stytting. Samtals er verið að áforma 54 kílómetra styttingu á næstu átta árum. Það þýðir að vesturleiðin færi niður í 394 kílómetra og yrði þar með 61 kílómetra styttri en Djúpvegur.
Það er hins vegar óvíst hvort vesturleiðin verði greiðfærari en Djúpleiðin um Þröskulda og Steingrímsfjarðarheiði, að því er fram kom í viðtali við Hrein Haraldsson vegamálastjóra í fréttum Stöðvar 2. Áfram verða erfiðir kaflar á Vestfjarðavegi, eins og Klettsháls, og óvíst er hvernig nýr vegur um Dynjandisheiði mun reynast.
Markmið vegarbótanna er þó ekki síður það að koma á heilsárstengingu milli suður- og norðurfjarða Vestfjarða og að opna nýjan hring fyrir ferðamenn. Í því felast kannski stærstu tækifæri Vestfirðinga, að þar opnist hringleið sem verður fær nánast allt árið.
„Þetta verður glæsilegur hringur þegar þessu lýkur,“ segir vegamálastjóri.