A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
13.04.2017 - 07:40 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Leggja milljónir í gullleit - Eru bjartsýnir á að finna gull

Þingeyrarvefurinn greindi frá væntanlegri gullleit í Arnarfirði þan 1. apríl sl.  Flestir töldu þetta vera aprílgabb. En - ekki skrökvar Þingeyrarvefurinn-
Þingeyrarvefurinn greindi frá væntanlegri gullleit í Arnarfirði þan 1. apríl sl. Flestir töldu þetta vera aprílgabb. En - ekki skrökvar Þingeyrarvefurinn-

• Hafa áform um leit að gulli víða um land næstu tvö ár
• Nýtt fjármagn í verkefnið frá Kanada
• Þormóðsdalur talinn geta veitt mikilvægar upplýsingar

 

„Ég er nokkuð bjartsýnn á að á endanum náum við gulli upp úr jörðinni, hvort sem það verður í Þormóðsdal eða annars staðar á landinu,“ segir Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, stjórnarformaður Iceland Resources ehf. (IR) sem leitar að vinnanlegu gulli hér á landi. Kanadíska fyrirtækið St-Georges Platinum and Base Metals Ltd hefur nú yfirtekið fyrirtækið og hleypir það sterkari fjárhagslegum stoðum undir verkefnin sem það hefur unnið að.

Nýtt dótturfélag St-Georges Platinum, sem annast mun starfsemi Iceland Resources, verður að 60% í eigu Kanadamannanna og að 40% í eigu fyrrverandi hluthafa sem eru bæði íslenskir og erlendir.

 

Misskilningur í Mosfellsbæ

Forsvarsmenn St-Georges Platinum and Base Metals Ltd segja að efst á dagskrá hér á landi sé að halda áfram rannsóknum með borunum í Þormóðsdal við Hafravatn, en þar var fyrst leitað eftir gulli á vegum Einars Benediktssonar og samstarfsmanna hans fyrir meira en hundrað árum. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í byrjun febrúar hefur skipulagsnefnd Mosfellsbæjar hafnað umsókn Iceland Resources um leyfi fyrir rannsóknarborunum á staðnum, en þeirri niðurstöðu hefur að sögn Vilhjálms verið áfrýjað til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Vonast hann eftir úrskurði nefndarinnar í haust og segir að í framhaldi af því verði sest niður með bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ að nýju.

„Við töldum það óhjákvæmilegt að fá formlegan úrskurð í þessu máli,“ segir hann, „þar sem misskilnings gætti í svari bæjaryfirvalda. Þau töldu að við værum að sækja um leyfi til gullvinnslu en við vorum einungis að óska eftir að gera tilraunaboranir.“ Hann segir að mikilvægt sé að halda þessu aðskildu, því niðurstöður borana í Þormóðsdal geti hjálpað til við að upplýsa hvernig gull liggi almennt í jarðlögum hér á landi og hvar eigi að bora eftir því. Það sé enn fremur ákveðinn ómöguleiki í því að ríkið, þ.e. Orkustofnun, veiti leyfi og sveitarfélög stöðvi það síðan. Þurfi því að fá skýra lagalega niðurstöðu í málið.

 

Með sjö umsóknir í gangi

Vilhjálmur segir að fyrirtækið sé nú með sjö leyfisumsóknir til rannsókna á nokkrum stöðum hér á landi í gangi. Þessir staðir eru á Reykjanesi, í Hveragerði, við Stóru-Laxá, við Þingmúla í Reyðarfirði, í Hörgárdal/Öxnadal, Sælingsdal og Arnarfirði. Þegar hefur fyrirtækið fengið leyfi Orkustofnunar til gullleitar á víðfeðmu svæði í Vopnafirði, en á þeim slóðum var leitað að gulli í byrjun tíunda árartugarins.

Til gullleitar á Íslandi þarf þolinmótt fjármagn og munu Kanadamennirnir leggja tugi milljóna í verkefnið á næstu árum. „Við gerum ráð fyrir því að á næstu tveimur árum verði varið á annað hundrað milljónum króna í grunnrannsóknir og svo boranir í Þormóðsdal, ef leyfi fæst til þeirra,“ segir Vilhjálmur.

 

Sex stig gullleitar

Leit að gulli í jörðu fer fram á sex stigum samkvæmt því sem segir á vefsíðu Iceland Resources. Fyrst fara fram almennar frumrannsóknir jarðfræðinga, síðan eru dregin upp jarðfræðikort með hjálp gervihnattamynda, þá er svæðið afmarkað til að greina þá staði sem bera hæstu gullgildi, því næst farið í sýnatöku og ef þær eru reynast vænlegar er ráðist í rannsóknarboranir.

Sjötta stigið felst í að draga ályktanir af gögnum um legu og rúmmál gullríka bergsins. Sé niðurstaðan jákvæð og gull finnst í vinnanlegu magni er hafist handa um framkvæmdir fáist til þess leyfi.


 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31