29.09.2008 - 23:50 | bb.is
Laufás vottaður sem heilsuleikskóli
Leikskólinn Laufás var formlega vottaður sem heilsuleikskóli í morgun. Markmið heilsuleikskóla er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Efnt var til blöðruhlaups, sem er skólahlaup, og var elstu nemendum í leikskólum sveitarfélagsins og nágrenni, boðið að koma og taka þátt. Heilsuefling í skólum byrjaði 1994 sem samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins við skóla á öllum skólastigum. Evrópuverkefni heilsuskóla hófst 1999 og lauk 2002 og voru 4 skólar og heilsugæslan í Kópavogi þátttakendur. Afrakstur Evrópuverkefnisins var viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram koma markmið heilsueflingar í skólum og þau grundvallarviðmið sem heilsuskólar eiga að starfa út frá.
Síðan þá hafa margir skólar, á ýmsum skólastigum, leitað til Landlæknisembættisins til að fá ráðgjöf og aðstoð við að byggja upp stefnu og starf sem miðar að því að skólinn verði heilsueflandi skóli. Einnig hefur Heilsuleikskólinn Urðarhóll, sem var fyrsti heilsuleikskólinn hér á landi (opnaði árið 1996) og tók virkan þátt í þróunarverkefninu, unnið kappsamlega að því að breiða út hugmyndafræði heilsuleikskóla, meðal annars með námskeiðum og fyrirlestrahaldi.