Langlífustu tvíburar Íslandssögunnar eru frá Dýrafirði
Systurnar Áslaug Sólbjört Jensdóttir og Jenna (Jensína) Jensdóttir eru elstu núlifandi íslensku tvíburarnir. Þær fæddust með meira en sólarhrings millibili, að Læk í Dýrafirði, Áslaug 23. ágúst 1918 og Jenna 24. ágúst, segir á Facebook-síðu Langlífis.
BBC sagði frá því í vikunni að tvíburasysturnar Ann og Elizabeth væru loks sameinaðar á ný eftir 78 ár en þær voru aðskildar við fæðingu. Er þetta lengsti aðskilnaður tvíbura sem vitað er um í heiminum.
Þegar Áslaug og Jenna héldu upp á 95 ára afmælið í fyrra voru þær í þriðja sæti yfir langlífustu tvíbura Íslandssögunnar. Metin voru 95 ár og 216 dagar og 95 ár og 52 dagar. En nú hafa Áslaug og Jenna slegið þessi met, höfðu um mánaðamótin lifað í 95 ár og 249-250 daga, samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu Langlífis. Þetta hefur Íslendingabók staðfest.
Áslaug er á Eir en Jenna býr á Seltjarnarnesi. Faðir þeirra varð 86 ára og amma þeirra í föðurætt 90 ára. Móðir þeirra varð 44 ára. Hún mun hafa verið sú fyrsta sem skírð var Ásta Sóllilja, 1892, og sú eina sem bar það nafn þegar Nóbelsskáldið gerði það frægt í Sjálfstæðu fólki, 1934.
Hér má lesa ítarlegt viðtal við Áslaugu og Jennu sem birtist í Morgunblaðinu árið 2009.