A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
13.03.2013 - 23:04 | bb.is,BIB

Landsliðskona í strandblaki frá Þingeyri

Laufey á smáþjóðaleikunum á Kýpur.
Laufey á smáþjóðaleikunum á Kýpur.
Þingeyringurinn Laufey Björk Sigmundsdóttir úr HK hefur verið valin í kvennalið Íslands í strandblaki sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum sem fram fara í Lúxemborg í lok maí. Hún keppir með Lilju Jónsdóttur úr Stjörnunni. Þess má geta að kærasti Laufeyjar, Emil Gunnarsson, hefur verið valinn í karlaliðið sem tekur þátt í leikunum.

„Ég prófaði strandblakið í lýðháskóla í Danmörku árið 2004 og byrjaði síðan að leika mér í þessu heima árið eftir. Ég hef verið í blaki á veturna síðan ég var í menntaskóla en ég hef verið í strandblaki síðan 2005 og alltaf tekið þátt þegar haldnar hafa verið mótaraðir yfir sumarið,“ segir Laufey Björk um tildrög þess að hún byrjaði að æfa strandblakið. Hún segir að strandblakið sé ólíkt inniblakinu þótt íþróttirnar séu í grunninn þær sömu. „Það er hellings munur þarna á, þetta eru ólíkar íþróttir. Leikurinn er hraðari í inniblaki, það eru fastari skellir og meiri varnir en maður þarf að vera klókari í sandinum, maður hleypur ekki eins hratt og hoppar ekki eins hátt í sandinum,“ segir Laufey Björk. 

Aðstaðan til að iðka strandblak á Íslandi er alltaf að batna að sögn Laufeyjar Bjarkar. „Við erum komin með inniaðstöðu í fyrsta skipti, hún kom síðasta sumar, í Sporthúsinu. Síðan eru vellir út um allt land á sumrin. Það er tvöfaldur völlur á Þingeyri og einn sá besti á landinu. Það er algjör snilldar völlur og þar er alltaf haldið eitt mót í mótaröðinni á sumrin. Það er erfiður völlur,“ segir Laufey Björk. Hún segir að íþróttin sé á uppleið á Íslandi. Síðasta sumar var keppt í A og B deildum en mörg sterk lið hafa sprottið upp að hennar sögn og mikið af byrjendum hófu að iðka íþróttina í vetur með tilkomu innivallanna í Sporthúsinu. 

„Ég hugsa að vinsældir íþróttarinnar á ólympíuleikunum hafi áhrif á aukningu iðkenda. Þetta er strandafílingur, sumarsport og útlandafílingur. Þarf líka bara fjóra einstaklinga til að ná hörku púli. Það er algjör plús líka og geggjað að eyða sumardegi í þetta, að djöflast í sandinum,“ segir Laufey Björk. Landsliðið er valið út mótaröðinni á sumrin. Það voru nokkrir einstaklingar valdir úr sterkustu liðunum síðasta sumar og teknar æfingar. „Lilja Jónsdóttir var einnig valin í liðið en ég var að spila með henni af og til síðasta sumar og spilaði með henni á smáþjóðaleikunum á Kýpur. Ég spilaði líka í Lichtenstein fyrir tveimur árum með mágkonu minni því þá var Lilja ný búin að eignast barn,“ segir Laufey Björk. 
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31