Landsbankinn: - Skjóta fyrst og spyrja svo!
„Með bréfi þessu vil ég greina þér frá því að Landsbankinn hefur ákveðið að sameina afgreiðslu sína á Þingeyri útibúi bankans á Ísafirði frá og með 25. september.“
Svo hljóðar upphaf bréfs sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, banka allra landsmanna, skrifar viðskiptavinum bankans í Dýrafirði, dags. 18. september 2015.
Með viku fyrirvara er ákveðið að skella í lás á Þingeyri og reyndar Suðureyri og Bolungarvík líka án þess að tala við nokkurn mann. Þetta eru náttúrlega stórmerkilegir starfshættir hjá almannafyrirtæki. Skjóta fyrst og spyrja svo! Allt í nafni hagræðingar. Þessi blessaði bankastjóri virðist ekki hafa hugmynd um hvernig hlutirnir gerast á hjara veraldar. Já, hagræðing og hagvöxtur. Það eru skemmtileg orð. Skyldi þetta vera arðbært? Hvað með hinar þjóðhagslegu afleiðingar slíkra aðgerða? Er það þjóðhagslega hagstætt að menn þurfi að aka 100 km þegar þá vantar til dæmis skotsilfur svo dæmi sé nefnt? Kannski í snarvitlausu veðri og ófærð.
Það er enginn að tala um að þessi blessaði banki eigi að beygja sig í duftið fyrir einhverja Móhikana, gamalmenni og útlendinga í fiskvinnslu vestur á fjörðum og gefa þeim monnínga. En hann á að sýna þessum eigendum sínum og viðskiptavinum virðingu og koma fram við þá á mannlegan hátt. Til dæmis að láta eina manneskju þjóna viðskiptavinum sínum fyrir vestan, sem eru upp á náð og miskunn komnir, tvisvar-þrisvar í viku. Það eru kannski slíkir hlutir sem menn eiga við með orðinu samfélagsbanki, sem hefur heyrst í umræðunni undanfarið. En ef meiningin er að allir flytji til Reykjavíkur þá þurfum við engan slíkan samfélagsbanka.
Þegar Matthías Bjarnason var viðskiptaráðherra 1986, veitti hann bönkunum harðar átölur vegna hækkana þeirra á þjónustugjöldum. Hann harðbannaði þeim að hækka þau gjöld á almenning. Þá kom verkalýðsforystan og færði kallinum blómvönd. Í dag taka ráðherrar ekki af skarið í einu eða neinu. Þess vegna er þeim ekki treyst. Og blómvönd fá þeir engan.
Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson