LÝÐHÁSKÓLINN FÆR STYRK OG AUGLÝSIR EFTIR FRAMKVÆMDASTJÓRA
Stjórn félags um lýðháskóla á Flateyri samþykkti á dögunum að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til að undirbúa stofnun skólans.
Félagið mun vinna með Fræðslumiðstöð Vestfjarða að málinu en Fræðslumiðstöðin fékk nýlega 5 milljóna kr. framlag frá mennta-og menningarmálaráðuneytinu til að þróa lýðháskóla. Áður hafði félagið fengið styrk frá uppbyggingarsjóði Vestfjarða til verkefnisins.
Framkvæmdastjóri verður með starfsstöð á Flateyri og vinnur að þróun skólans og undirbúningi. Umsóknarfrestur verður til 1. desember og ráðið í stöðuna frá 15. febrúar 2018.
Stjórn félags um stofnun lýðháskóla á Flateyri lýsti jafnframt á fundi sínum yfir sérstakri ánægju með fyrirhugað samstarf við Fræðslumiðstöðina um málið og þakkaði mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt verkefninu sem og öðrum þeim sem að þróun þess hafa komið.